„Vá. Þetta var furðulegt“

Miklar umræður hafa skapast á Twitter og Facebook í dag í kjölfar viðtals Gísla Marteins Baldurssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í þættinum Sunnudagsmorgunn. Í viðtalinu sakaði Sigmundur Davíð Gísla um að oftúlka og fullyrða hluti og Gísli Sigmund um að svara ekki spurningum og að skammast í fólki.

Í þættinum var m.a. rætt um Seðlabankann og frétt á Eyjunni þess efnis að til stæði að breyta lögum um bankann og m.a. fjölga seðlabankastjórum úr einum í þrjá.

Viðtalið tók fljótlega nokkuð óvænta stefnu, m.a. er Sigmundur Davíð sóttist eftir áliti Gísla Marteins á Fréttablaðinu, eftir að sá síðarnefndi hafði sagt að „gamlir framsóknarmenn“ stýrðu Eyjunni.

„Það er ég sem er að taka viðtalið,“ sagði Gísli þá í léttum tón. Sigmundur hélt áfram að tala um Fréttablaðið og Gísli sagðist ætla að spyrja Ólaf Stephensen, ritstjóra blaðsins, út í þá gagnrýni síðar. „Þú mátt þá ekki gleyma því,“ sagði Sigmundur þá.

Í kjölfarið héldu þeir áfram að ræða um fjölgun seðlabankastjóra. Gísli spurði af hverju þyrfti að bæta við tveimur seðlabankastjórum. „Þannig að þú lítur þannig á að [Már Guðmundsson seðlabankastjóri] sé það pólitískur að þú verðir að koma inn með þína pólitík á móti?“ spurði Gísli. „Nei,“ svaraði Sigmundur og hló. „Þetta er orðið svolítið undarlegt viðtal.“ Hann bætti svo við að Gísli væri alltaf að segja sínar skoðanir og oftúlka hlutina.

Upphófst þá mikið karp þar sem Gísli sagði m.a.: „Ég stýri þessu viðtali.“ Sigmundur bað hann að leggja sér ekki orð í munn, m.a. um að það ætti að setja tvo nýja seðlabankastjóra. „Ef þú vilt útskýra hver afstaða mín er í ýmsum málum þá getur þú bara setið einn og sagt það í myndavélina!“ sagði Sigmundur. 

„Ég er ekki sá fyrsti sem lendir í því að þú kemur og skammast yfir fólki sem er að segja eitthvað,“ sagði Gísli. 

„Ætlarðu að leyfa mér að svara einhverjum spurningum?“ spurði Sigmundur skömmu síðar og sagði svo: „Róaðu þig aðeins niður.“. Gísli sagðist þá vera alveg rólegur.

„Viltu heyra einhver svör við spurningum?“

Gísli rifjaði upp að Sigmundur Davíð hefði sagt í ræðu sinni á Viðskiptaþingi fyrir helgi að hann væri ekki þangað kominn til að segja það sem viðskiptalífið vildi heyra. „Hvað er það sem þú heldur að viðskiptalífið vilji heyra?“ spurði Gísli. 

„Ég veit ekki hvað þú vilt heyra, viltu heyra einhver svör við spurningum?“ spurði Sigmundur Davíð þá. 

Síðar ræddu þeir um gagnrýni Sigmundar Davíðs á skrif háskólafólks. Gísli spurði hvort  þetta fólk verðskuldaði stimpilinn „pólitískir krossfarar úr háskólasamfélaginu“. Sigmundur svaraði: „Það eru dæmi um það já. Þú mættir til dæmis hafa meira jafnvægi í þessum þætti með því að fá fólk af landsbyggðinni í viðtal hjá þér stundum.“

„Takk,“ svaraði Gísli Marteinn.

Viðtalið endaði svo á þessum orðum:

Gísli Marteinn: „Takk fyrir komuna.“

Sigmundur Davíð: „Þú stóðst þig ágætlega í að sanna þig í því að þú værir ekki að tala sérstaklega fyrir ríkisstjórnina“

Gísli horfði þá þögull á Sigmund um stund og sagði svo: „Takk.“

Hér má horfa á viðtalið í heild og hér að neðan má sjá viðbrögð nokkurra áhorfenda þáttarins af Twitter:

Andrés Jónsson, almannatengill hjá Góðum samskiptum skrifaði á Twitter: „Er að horfa á þetta aftur. Þetta er algjörlega SDG sjálfum að kenna hvernig viðtalið þróaðist. GMB var mjög kurteis.“

Atli Fannar Bjarkason, aðstoðarmaður formanns Bjartrar framtíðar skrifaði: Langar að tísta um viðtal við SDG en er algjörlega orðlaus. #sunnudagur og síðar: „Lítið annað að gera á þessum #sunnudagur en að fara út og borða egg og beikon. Það er #minskodun allavega.“

Halldór Halldórsson, Dóri DNA, skrifaði: „Sigmundur Davíð er algjörlega ómögulegur sem viðmælandi í viðtölum. Bara þras, bara stælar, aldrei fastur punktur eða einlægni.

Hörður Ágústsson, forstjóri Maclands.is skrifar: „Vandræðalegasta tv móment Íslandssögunnar fyrir forsætisráðherra landsins.“

Gísli Marteinn skrifaði svo sjálfur á Twitter í dag: „Vá. Þetta var furðulegt. #sunnudagur“ og síðar: „Það er verið að ræða um að ég fái að halda áfram, en fái tvo þáttastjórnendur með mér við hlið. #már #sunnudagur“

Páll Vilhjálmsson, blaðamaður og kennari, bloggaði um þáttinn og skrifaði m.a.: „Gísli Marteinn Baldursson er talsmaður pólitískra lífsgilda sem kenna má við 101 Reykjavík. Hann er andstæðingur landsbyggðar, tekur hagsmuni verslunarinnar fram yfir hag framleiðenda. Pólitík Gísla Marteins litaði spurningar hans til forsætisráðherra.“

Ekki nýr ráðherra á næstu vikum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert