Samninganefndir Kennarasambandsins funda í dag með samninganefnd ríkisins vegna kjaradeilu kennara. Síðasti fundur var síðastliðinn miðvikudag en lítið virðist hafa þokast í átt að samningum.
Ákveðið var á fundi trúnaðarmanna og formanna kennarafélaga í framhaldsskólum í síðustu viku að atkvæðagreiðsla um boðun verkfalls færi fram í þessari viku. Að sögn Aðalheiðar Steingrímsdóttur, formanns Félags framhaldsskólakennara, hefst atkvæðagreiðslan á morgun og lýkur á föstudag. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar, hvort koma muni til verkfalls eða ekki, mun liggja fyrir í næstu viku.
Aðalheiður vildi lítið tjá sig um stöðu mála fyrir fundinn í morgun. „Ég get lítið annað sagt en það eru samræður í gangi,“ sagði hún í samtali við mbl.is.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagðist í samtali við mbl.is á föstudag vonast til þess að hægt verði að nýta það svigrúm sem myndast við breytingar á framhaldsskólakerfinu til að bæta kjör kennara.
„Það er augljóst að staðan á almennum vinnumarkaði setur mjög þröngan ramma og hlýtur að hafa mótandi áhrif á stöðuna sem er uppi varðandi kjarasamninga hjá ríkinu. Þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að nýta það tækifæri sem myndast við að fara í ákveðnar breytingar á framhaldsskólakerfinu,“ segir Illugi.