Evrópuskýrslan lögð fram á morgun

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skýrsla sem unnin hefur verið fyrir ríkisstjórnina um umsóknina um inngöngu Íslands í Evrópusambandsins og þróunina innan Evrópusambandsins verður lögð fram á Alþingi á morgun og um leið gerð aðgengileg á netinu. Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, mun síðan kynna hana fyrir þingmönnum á þingfundi á miðvikudaginn.

Þetta staðfestir Margrét Gísladóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is. Samið var við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um gerð skýrslunnar í lok október síðastliðins og hófst vinnan við hana í kjölfarið. Gert var ráð fyrir að Hagfræðistofnun skilaði skýrslunni af sér um miðjan síðasta mánuð.

Kveðið er á um gerð skýrslunnar í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt að í kjölfar skýrslunnar verði tekin endanleg ákvörðun um það hvernig verði haldið á málum varðandi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið en hlé var gert á umsóknarferlinu í kjölfar myndunar ríkisstjórnarinnar í maí síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert