Atvinnuleysi er að jafnaði mun minna í Bandaríkjunum en innan Evrópusambandsins. Árið 2012 var til dæmis atvinnuleysi 2,5 prósentustigum lægra í Bandaríkjunum en að meðaltali í Evrópusambandinu.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunina innan sambandsins sem unnin var fyrir stjórnvöld.
Þar segir að atvinnuleysi í aðildarríkjum Evrópusambandsins hafi verið rúm tíu prósent árið 1993 en minnkað fram að upptöku evrunnar árið 1999. Frá aldamótum og til ársins 2008 hafi atvinnuleysið sveiflast milli 7% og 8,5% en aukist síðan og verið 10,5% árið 2012. Benda skýrsluhöfundar á að atvinnuleysi í Japan hafi einungis verið 4,3% árið 2012.
Meðal fjölmennustu aðildarríkja Evrópusambandsins hafa hvað mestar sveiflur í atvinnuleysi verið í Póllandi og á Spáni, að því er segir í skýrslunni. Um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar hafi atvinnuleysi á Spáni farið yfir 20% en það var einungis rúm 8% árið 2007.
Það jókst aftur eftir fjármálahrunið og var orðið 25% árið 2012. Atvinnuleysi í Grikklandi var einmitt tæp 25% árið 2012.
Til samanburðar hefur atvinnuleysi í Austurríki og Lúxemborg að jafnaði verið minna en fimm prósent og haldist stöðugt.
„Atvinnuleysi í Þýskalandi, í Frakklandi, í Bretlandi og á Ítalíu hefur að sama skapi verið stöðugra en á Spáni, að jafnaði á bilinu 5% [til] 10%,“ segir í skýrslunni.
Segja má að leiðir Evrópu og Bandaríkjanna hafi skilið hvað atvinnuleysi varðar í kringum árið 2011. Á meðan atvinnuleysi hefur aukist í Evrópu þá hefur jafnt og þétt dregið úr því í Bandaríkjunum. Rekja má tæp 40% af vexti í atvinnuleysi meðal aðildarríkja Evrópusambandsins árin 2009 til 2012 til Spánar, að því er segir í skýrslunni.
Eina ríkið þar sem að verulegu leyti dró úr atvinnuleysi var hins vegar Þýskaland. Atvinnuleysi á Spáni hefur vaxið úr því að vera um 16% í byrjun árs 2009 í um 26% árið 2013. Meira en fimm prósentustiga vöxt mátti einnig sjá í Grikklandi og á Kýpur. Atvinnuleysi hefur aukist meira á evrusvæðinu en í öðrum ríkjum sambandsins, samkvæmt því sem segir í skýrslunni.
Atvinnuleysi meðal ungs fólks í Evrópu hefur einmitt verið sérstakt áhyggjuefni. Árið 2012 var atvinnuleysi meðal ungmenna, þ.e. þeirra sem eru yngri en 25 ára, í aðildarríkjum Evrópusambandsins 23%. Atvinnuleysi ungmenna var meira en 25% í þrettán aðildarríkjum Evrópusambandsins og einungis minna en 10% í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi.
Árið 2012 var atvinnuleysi ungmenna á Spáni 53%, en 55% í Grikklandi. Atvinnuleysi var einnig mikið í öðrum löndum þar sem hagvöxtur var lítill eins og á Ítalíu, í Portúgal og Slóveníu, eftir því sem fram kemur í skýrslunni.
Í skýrslunni er einnig fjallað um atvinnustig, sem er skilgreint sem hlutfall starfandi manna af fólki á vinnualdri. Þar segir að atvinnustig í Evrópu hafi aukist frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og fram til ársins 2008 þegar það hafi náð hámarki.
Frá árinu 1995 til ársins 2008 hækkaði atvinnustig aðildarríkja sambandsins úr 60% í um 65,7%, en lækkaði næstu tvö árin og hefur staðið í um það bil 64% frá 2010.
Í skýrslunni kemur fram að sögulega hafi atvinnustig verið lægra meðal aðildarríkja Evrópusambandsins en í Bandaríkjunum og Japan, en hvað hæst á Íslandi. Árið 2012 var atvinnustig á Íslandi tæp 80%, 71% í Japan og 67% í Bandaríkjunum.