Atvinnuleysi meira innan ESB

Frá kröfugöngu í París. Aldrei hafa ungmenni mælt göturnar í …
Frá kröfugöngu í París. Aldrei hafa ungmenni mælt göturnar í Frakklandi. BERTRAND LANGLOIS

Atvinnuleysi er að jafnaði mun minna í Bandaríkjunum en innan Evrópusambandsins. Árið 2012 var til dæmis atvinnuleysi 2,5 prósentustigum lægra í Bandaríkjunum en að meðaltali í Evrópusambandinu.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunina innan sambandsins sem unnin var fyrir stjórnvöld.

Þar segir að atvinnuleysi í aðildarríkjum Evrópusambandsins hafi verið rúm tíu prósent árið 1993 en minnkað fram að upptöku evrunnar árið 1999. Frá aldamótum og til ársins 2008 hafi atvinnuleysið sveiflast milli 7% og 8,5% en aukist síðan og verið 10,5% árið 2012. Benda skýrsluhöfundar á að atvinnuleysi í Japan hafi einungis verið 4,3% árið 2012.

Meðal fjölmennustu aðildarríkja Evrópusambandsins hafa hvað mestar sveiflur í atvinnuleysi verið í Póllandi og á Spáni, að því er segir í skýrslunni. Um miðbik tíunda áratugar síðustu aldar hafi atvinnuleysi á Spáni farið yfir 20% en það var einungis rúm 8% árið 2007.

Það jókst aftur eftir fjármálahrunið og var orðið 25% árið 2012. Atvinnuleysi í Grikklandi var einmitt tæp 25% árið 2012.

Atvinnuleysi haldist stöðugt í Austurríki

Til samanburðar hefur atvinnuleysi í Austurríki og Lúxemborg að jafnaði verið minna en fimm prósent og haldist stöðugt.

„Atvinnuleysi í Þýskalandi, í Frakklandi, í Bretlandi og á Ítalíu hefur að sama skapi verið stöðugra en á Spáni, að jafnaði á bilinu 5% [til] 10%,“ segir í skýrslunni.

Þróunin öfug í Bandaríkjunum

Segja má að leiðir Evrópu og Bandaríkjanna hafi skilið hvað atvinnuleysi varðar í kringum árið 2011. Á meðan atvinnuleysi hefur aukist í Evrópu þá hefur jafnt og þétt dregið úr því í Bandaríkjunum. Rekja má tæp 40% af vexti í atvinnuleysi meðal aðildarríkja Evrópusambandsins árin 2009 til 2012 til Spánar, að því er segir í skýrslunni.

Eina ríkið þar sem að verulegu leyti dró úr atvinnuleysi var hins vegar Þýskaland. Atvinnuleysi á Spáni hefur vaxið úr því að vera um 16% í byrjun árs 2009 í um 26% árið 2013. Meira en fimm prósentustiga vöxt mátti einnig sjá í Grikklandi og á Kýpur. Atvinnuleysi hefur aukist meira á evrusvæðinu en í öðrum ríkjum sambandsins, samkvæmt því sem segir í skýrslunni. 

Atvinnuleysi ungmenna áhyggjuefni

Atvinnuleysi meðal ungs fólks í Evrópu hefur einmitt verið sérstakt áhyggjuefni. Árið 2012 var atvinnuleysi meðal ungmenna, þ.e. þeirra sem eru yngri en 25 ára, í aðildarríkjum Evrópusambandsins 23%. Atvinnuleysi ungmenna var meira en 25% í þrettán aðildarríkjum Evrópusambandsins og einungis minna en 10% í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi.

Árið 2012 var atvinnuleysi ungmenna á Spáni 53%, en 55% í Grikklandi. Atvinnuleysi var einnig mikið í öðrum löndum þar sem hagvöxtur var lítill eins og á Ítalíu, í Portúgal og Slóveníu, eftir því sem fram kemur í skýrslunni.

Í skýrslunni er einnig fjallað um atvinnustig, sem er skilgreint sem hlutfall starfandi manna af fólki á vinnualdri. Þar segir að atvinnustig í Evrópu hafi aukist frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og fram til ársins 2008 þegar það hafi náð hámarki.

Atvinnustig hátt á Íslandi

Frá árinu 1995 til ársins 2008 hækkaði atvinnustig aðildarríkja sambandsins úr 60% í um 65,7%, en lækkaði næstu tvö árin og hefur staðið í um það bil 64% frá 2010.

Í skýrslunni kemur fram að sögulega hafi atvinnustig verið lægra meðal aðildarríkja Evrópusambandsins en í Bandaríkjunum og Japan, en hvað hæst á Íslandi. Árið 2012 var atvinnustig á Íslandi tæp 80%, 71% í Japan og 67% í Bandaríkjunum.

Grikkir eru orðnir þreyttir á langvarandi atvinnuleysi í landinu.
Grikkir eru orðnir þreyttir á langvarandi atvinnuleysi í landinu. LOUISA GOULIAMAKI
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert