Hlutfall landa Evrópusambandsins sem ná ekki að uppfylla markmið Maastricht-skilyrðanna hefur hækkað undanfarin ár. Það endurspeglar verri stöðu hins opinbera bæði á evrusvæðinu og í Evrópusambandinu, eftir því sem segir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknar Íslands um inngöngu í Evrópusambandið og þróunarinnar innan sambandsins sem kynnt var í dag.
Í skýrslunni segir að evrukreppan hafi leitt í ljós ýmsar brotalamir í sameiginlega myntkerfinu. Sundurleitni í efnahag evrusvæðisins, sérstaklega þegar litið er til stöðu ríkisfjármála einstakra ríkja, hafi jafnframt valdið vandræðum.
Hagvaxtarspár sem ná til allra næstu ára gera ráð fyrir að hagvöxtur í Evrópusambandinu muni verða minni en í Bandaríkjunum. Í skýrslunni segir þó að hagvaxtarþróun einstakra landa innan sambandsins geti orðið mjög ólík.
Verðbólga sé mismikil í löndum sambandsins og jafnvel innan evrusvæðisins, þrátt fyrir sameiginlegan markað og mynt.
Á undanförnum árum hafi hins vegar dregið töluvert úr sundurleitni verðbólgu innan ESB. Þau lönd sem hafi glímt við háa verðbólgu fyrir inngöngu hafi gert það í nokkurn tíma eftir inngöngu. Síðan hafi virst sem verðbólgan hafi leitað í jafnvægi á svæðinu.
Fram kemur í skýrslunni að flestar spár bendi til að mismunur í verðbólgu hinna ýmsu aðildarríkja Evrópusambandsins muni fara minnkandi með tímanum.
Í skýrslunni er einnig fjallað um vaxtakjör innan sambandsins en í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að þrátt fyrir sameiginlega mynt sé talsverður munur á vöxtum milli landa á evrusvæðinu. Gildi það bæði hvað varðar fólk og fyrirtæki, innláns- og útlánsvexti.
Þá segir að mikill munur sé á atvinnuleysi milli svæða í sambandinu. Þrátt fyrir sameiginlegan vinnumarkað virðist sem tiltölulega lítið sé um búferlaflutninga milli landa sambandsins og því dragi hægt úr þessum mun.
„Þá hafa komið í ljós vandamál sem snerta starfsumhverfi fyrirtækja. Fram undir síðustu aldamót minnkaði munur í framleiðni milli Evrópulanda og Bandaríkjanna en rétt fyrir síðustu aldamót tók hann að vaxa aftur.
Þegar fjármálakreppan reið yfir heiminn hélt framleiðni áfram að vaxa í Bandaríkjunum meðan hún minnkaði í Evrópu,“ segir jafnframt í skýrslunni.
Hér má finna skýrsluna í heild sinni.