Hagar fá ekki viðbótartollkvóta

Geitaostur
Geitaostur Af vef Wikipedia

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur að fenginni tillögu frá ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara ákveðið að úthluta ekki viðbótartollkvótum fyrir innflutning á buffala-, geita- og ærmjólkurostum né heldur lífrænum kjúklingi.

Ástæðan er sú að sérstakir tollkvótar fyrir 219 tonnum af osti og 259 tonnum af alifuglakjöti er árlega úthlutað og handhöfum þeirra er í sjálfsvald sett hvaða osta og alifuglakjöt þeir ákveði að flytja inn, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Þann 3. febrúar sl. barst ráðuneytinu erindi þar sem farið var fram á opinn tollkvóta án gjalda fyrir innflutning á buffala-, geita- og ærmjólkurostum. Í erindinu kemur fram að forsenda beiðninnar sé sú að framleiðsla nefndra afurða sé ýmist engin eða hverfandi og anni þar af leiðandi ekki eftirspurn. Þá hefur ráðuneytinu einnig borist sambærileg beiðni um opinn tollkvóta vegna innflutnings á lífrænum kjúklingi. Samkvæmt 65. gr. A laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum úthlutar ráðherra tollkvótum að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara þegar framboð á viðkomandi vöru er ekki nægjanlegt á innanlandsmarkaði.

Ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hefur fjallað um málið. Niðurstaða nefndarinnar er sú að ekki þykir ástæða til að úthluta opnum tollkvóta fyrir umræddar vörur. Ástæða þess er að í desember sl. var úthlutað 100 tonna tollkvóta fyrir osta, þar af 20 tonn af sérostum með landfræðilegum merkingum. Þá er árlega, í júní, úthlutað 119 tonna WTO tollkvóta fyrir osta. Innflytjendur sem fá úthlutað tollkvóta ákveða sjálfir hvers konar ostar fluttir eru inn. Hafa þeir þannig frjálsar hendur um hvernig þeir ráðstafa tollkvóta sínum og gætu til dæmis flutt inn ofangreindar ostategundir ef vilji stæði til. Með hliðsjón af framangreindu þykir því ekki vera ástæða til þess að úthluta viðbótartollkvótum fyrir buffala-, geita- og ærmjólkurosta. Sömu rök gilda varðandi úthlutun tollkvóta vegna kjúklings, en árlega er úthlutað 259 tonna tollkvóta fyrir kjöt af alifuglum. Þá er rétt að geta þess að ráðherra hefur ekki heimild til að fella niður tolla á ákveðnar vörur. Í lögum er því lýst hvernig tollar skulu ákvarðaðir fyrir vörur sem fluttar eru inn innan tollkvóta.

Á ríkisstjórnarfundi sl. þriðjudag upplýsti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að til stæði að endurskoða löggjöf um úthlutun tollkvóta í ljósi þeirrar reynslu sem nú liggur fyrir um framkvæmd löggjafarinnar og þeirra álitaefna sem upp hafa komið. Í þessu sambandi verður m.a. skoðað hvort tilefni sé til að sett verði hámark á markaðsráðandi aðila við úthlutun tollkvóta.

Íslensk stjórnvöld hafa um alllangt skeið átt í tvíhliða viðræðum við ESB um aukin gagnkvæm viðskipti með landbúnaðarvörur og standa vonir til þess að þeim viðræðum ljúki á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

EPA
Buffalo mossarella ostur
Buffalo mossarella ostur Af vef Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert