Ísland gat ekki stytt sér leið

Strax varð ljóst að Ísland fengi enga sérmeðferð.
Strax varð ljóst að Ísland fengi enga sérmeðferð.

Strax varð ljóst að Ísland fengi enga sérstaka meðferð þannig að það gæti stytt sér leið í aðildarferlinu. Ný stefna Evrópusambandsins í stækkunarmálum sem innleidd var árið 2006 hafði mikil áhrif á gang viðræðnanna og tók aðildarferlið í upphafi aðra stefnu en vonast hafði verið til.

Þetta kemur fram í viðauka Ágústs Þórs Árnasonar, aðjúnkts við lagadeild Háskólans á Akureyri, við Evrópuskýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Ágúst Þór segir að aðildarferlið hafi sætt gagnrýni bæði fræðimanna og stjórnmálamanna fyrir að vera þungt og ófyrirsjáanlegt. Í greininni segir hann að nýja stækkunarstefnan hafi haft í för með sér strangari skilyrðasetningu sem átti eftir að hafa mikil áhrif á aðildarferlið með innleiðingu á opnunar- og lokunarviðmiðum.

Hann segir að árið 2006 hafi verið opnað fyrir möguleikann á því að setja opnunar- og lokunarviðmið í einstökum köflum viðræðna við umsóknarríki Evrópusambandsins. Þá hafi aðildarríki sambandsins fengið aukin tækifæri til að þrýsta á um lausn tvíhliða deilumála við umsóknarríki.

Þessi breyting hafi verið gagnrýnd fyrir að valda því að aðildarferlinu geti verið haldið í gíslingu til að þjóna hagsmunum einstakra aðildarríkja.

Eðlilegt að endurmeta stöðuna

„Eins og alkunna er komu tvíhliða deilur við sögu í tilfelli Íslands. Þannig lýstu Hollendingar því yfir sumarið 2010, um það leyti sem ákveðið var að hefja aðildarviðræður við Ísland, að þeir myndu tefja aðildarferlið leystist Icesave-deilan ekki í samræmi við kröfur þeirra.

Þá voru deilur um skiptingu makrílkvótans taldar hafa áhrif á stöðu sjávarútvegskaflans og vera meðal þess sem tafði aðildarviðræðurnar,“ segir í grein Ágústs Þórs.

Því hafi það verið bæði eðlilegt og nauðsynlegt að staldra við og endurmeta stöðuna.

Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri.
Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka