Starfsár skákfélagsins Hróksins hefst á morgun með vikuferðalagi til þorpa á Austurströnd Grænlands. Skólar, barnaheimili og athvörf í Tasiilaq, Kulusuk og Tiniteqilaaq verða heimsótt, efnt til kennslu, fjöltefla og skákmóta. Fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar senda gjafir, vinninga og verðlaun með leiðangursmönnum Hróksins.
Árið 2003 hóf Hrókurinn að skipuleggja ferðir til Grænlands en skák var þá nánast óþekkt íþrótt í landinu. Ferðir félagsins til Grænlands eru nú fleiri en 30 og þúsundir barna og ungmenna á Grænlandi hafa nú fengið að kynnast töfraheimi skákíþróttarinnar.
Leiðangurinn til Austur-Grænlands 19. til 26. febrúar hefur kjörorðið: ,,Gleðin að leiðarljósi". Flugfélag Íslands er sem fyrr helsti samstarfsaðili Hróksins á Grænlandi við að útbreiða fagnaðarerindi skákarinnar, en meðal annarra bakhjarla að þessu sinni ber að nefna Úrsus hf. og Íslenska fjallaleiðsögumenn. Auk þess senda fjölmörg fyrirtæki gjafir til grænlensku barnanna.
Þá hafa fjölmargir einstaklingar og félög lagt sitt af mörkum. Börnin í skákdeild Fjölnis söfnuðu þannig fjölda vinninga og gjafa, auk þess að safna upphæð sem dugar fyrir 15 taflsettum á Grænlandi. Björg Haraldsdóttir, fv. starfsmaður í Vin athvarf sendir börnunum í Kulusuk taflsett og Marta Matthíasdóttir, starfsmaður Háskóla Íslands, efndi til söfnunar meðal háskólafólks og barna þeirra. Mireya Samber myndlistarkona færir svo grænlensku börnunum eðalprjónavörur.
Leiðangursmenn Hróksins til Austur-Grænlands eru Hrafn Jökulsson, Róbert Lagerman, Stefán Herbertsson og Jón Grétar Magnússon. Vernandi leiðangursins til Austur-Grænalands er Jóhanna Kristjónsdóttir, sem frá upphafi hefur stutt starf Hróksins á Grænlandi með ráðum og dáð.