30 stiga munur á lægsta og hæsta hita

Veðurmælirinn á Mývatni mældi -28,2 stig í morgun.
Veðurmælirinn á Mývatni mældi -28,2 stig í morgun. mbl.is/Birkir Fanndal

Á tíunda tímanum í morgun fór kuldinn á Kárahnjúkum niður í -27,7 stig en á sama tíma var hæsti hiti á landinu 2,7 stig á Breiðdalsá. Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir ekki óalgengt að svo mikill munur sé á milli lægsta og hæsta hita.

„Þetta gerist reglulega. Það situr hæð núna yfir landinu, og einkum yfir austurhálendinu, og léttskýjað og kalt loft og þá verður mjög kalt lagið næst jörðinni,“ segir Björn og tekur Mývatn sem dæmi en þar fór kuldinn í –28,2 stig í morgun. „Mývatn er náttúrlega í dæld, þannig að kalda loftið leitar niður að vatninu. Og vatnið er frosið og síðan er mælirinn sjálfur úti á Neslandatanga, sem stendur langt út í vatnið. Þannig að mælirinn er eiginlega úti í miðju vatninu og nær alveg þessum kulda sem er á vatninu,“ segir hann.

Veðurstofan hefur varað við stormi syðst á landinu á morgun og segir Björn að ekkert ferðaveður verði undir Eyjafjöllum. „Það verður ofsaveður undir Eyjafjöllum á morgun. Mjög hvasst með suðurströndinni, allt að 30 metrar undir Eyjafjöllum,“ segir hann.

„Síðan verður áfram hvassviðri á fimmtudag og slydda sunnan til og snjókoma á austanverðu landinu, jafnvel talsverð. Og svo lægir smám saman á föstudag og síðan á að vera fremur hæg norðaustan átt á laugardag og úrkomulítið og bjart hérna syðra,“ segir hann um framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert