Á morgun, miðvikudag, fara fram sérstakar umræður á Alþingi um stefnumótun í vímuefnamálum. Málshefjandi er Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og til andsvara verður heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson. Umræðan hefst klukkan 15.30 á morgun.
Í frétt á vefsíðu á þingflokks Pírata segir að helstu áherslurnar á morgun verði árangur og afleiðingar refsinga fyrir neyslu ólölegra vímuefna, mannréttindavernd og þjónusta fyrir vímuefnaneytendur og framtíðastefnumótun í vímu- og fíkniefnamálum.
Þá segir jafnframt að þingmenn Pírata hafi að undanförnu verið að kynna drög að þingsályktun um þessi efni fyrir þingmönnum allra flokka. Umræðan á morgun sé liður í því að kynna málið og gefa öðrum þingmönnum kost á að viðra sín sjónarmið.