Féllst ekki á yfirráð Norðmanna

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Norden.org

Ekki var fallist á það af hálfu Evrópusambandsins að Norðmenn færu áfram með stjórn fiskveiða innan efnahagslögsögu sinnar norðan 62. gráðu norðlægrar breiddar líkt og þeir fóru fram á í viðræðum um inngöngu í sambandið fyrir rúmum tveimur áratugum síðan. Kröfuna rökstuddu norsk stjórnvöld með mikilvægi sjávarútvegs fyrir norskan útflutning og byggðir við strendur Noregs.

Haft er eftir Össuri Skarphéðinssyni, þingmanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra, í Morgunblaðinu í dag að Norðmenn hafi „fengið það í gegn að stýra sjálfir sínum fiskveiðihagsmunum norðan 62. breiddarbaugs á meðan sjávarútvegur sé lífsnauðsynlegur fyrir hagsmuni þeirra sem þar búi.“ Fordæmi væri þar fyrir Ísland enda væri sjávarútvegur lífsnauðsynlegur fyrir Íslendinga og þannig yrði það um aldir.

Samkvæmt aðildarsamningi Noregs féllst Evrópusambandið hins vegar einungis á að Norðmenn færu tímabundið með stjórn fiskveiða norðan 62. breiddargráðu. Stjórn fiskveiðanna átti í samræmi við það að færast til sambandsins 30. júní 1998 samkvæmt aðildarsamningi Norðmanna en til þess kom þó ekki þar sem norskir kjósendur höfnuðu inngöngu í Evrópusambandið í nóvember 1994.

Varanlegar undanþágur hafa ekki fengist

Komið er inn á þetta í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem lögð var fram á Alþingi í gær í umfjöllun um mögulegar varanlegar undanþágur í tengslum við inngöngu í sambandið. Þar segir að Norðmenn hafi farið fram á varanlega undanþágu í þessum efnum en ekki fengið. Skoðun á öðrum samningum um inngöngu ríkja í Evrópusambandið sýndi ennfremur að varanlegar undanþágur hefðu ekki fengist frá löggjöf sambandsins.

Fjallað er með ítarlegum hætti um aðildarsamning Norðmanna í riti Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors, og Óttars Pálssonar, hæstaréttarlögmanns, Fiskveiðireglur Íslands og Evrópusambandsins frá 2003 en þar segir um kröfu norskra stjórnvalda um að fara áfram með stjórn fiskveiða norðan 62. breiddargráðu:

„Norðmenn lögðu sem áður segir áherslu á að halda óbreyttri þeirri stjórnun fiskveiða sem þeir höfðu viðhaft á norskum hafsvæðum, einkum norðan 62. gráðu norðlægrar breiddar. Ástæðan var sú að norska stjórnunarkerfið hafði gefið góða raun og norskir sjómenn, sérstaklega á strandsvæðunum í norðri, voru mjög háðir þessum veiðum. Niðurstaða samningaviðræðnanna varð sú að Norðmenn skyldu fara tímabundið áfram með stjórn veiðanna [...] Gert var ráð fyrir að þessi völd hyrfu til bandalagsins eftir 30. júní 1998.“

Samið um sérstaka tímabundna útfærslu

Ennfremur er fjallað um umrædda kröfu Norðmanna í skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra frá 2007 sem skipuð var þverpólitískum hópi þingmanna. Þar segir:

„Noregur fékk engar varanlegar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB í aðildarsamningi sínum 1994, heldur einungis nokkrar tímabundnar undanþágur. Að auki var samið um sérstaka tímabundna útfærslu um stjórnun fiskveiða norðan við 62°N, sem er að finna í 49. gr. samningsins og sameiginlegri yfirlýsingu. Sú útfærsla hefði hins vegar ekki falið í sér að Noregur myndi stjórna veiðum á því svæði nema í þann tíma sem tiltekinn er í ákvæðinu, þ.e. til 30. júní 1998, og kom það skýrt fram í máli sérfræðinga framkvæmdastjórnar ESB í sjávarútvegsmálum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert