Fjölmiðlafárið raunveruleg refsing

Sigurður Kárason.
Sigurður Kárason. mbl.is/Rósa Braga

Miðlun lögreglu höfuðborgarsvæðisins á upplýsingum til fjölmiðla um Sigurð Kárason í upphafi rannsóknar á málum hans var óforsvaranleg og leiddi til fjölmiðlafárs. Það olli Sigurði og fjölskyldu hans miklum miska og lítur hann á það sem sína raunverulegu refsingu, sem honum var gerð án dóms og laga. Þetta sagði verjandi Sigurðar í ræðu sinni í dag.

Eins og komið hefur fram fór fram aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Sigurði Kárasyni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í málinu er honum gefið að sök að hafa svikið á annað hundrað milljónir út úr sextán einstaklingum. Í dag fór fram málflutningur og hefur þegar verið greint frá ræðu saksóknara.

Sigurður hefur ávallt lýst yfir sakleysi sínu í málinu og reifaði verjandi hans helstu röksemdir fyrir því. „Ákærði stundaði margskonar viðskipti við allskyns fólk á þessu tímabili og á þeim tíma tók hann lán hjá fólki vegna viðskiptanna.“ Hann sagði að viðskiptin hefðu oftar en ekki verið að frumkvæði annarra, mikil vinna hafi farið í viðskiptin og útlagður kostnaður verið tekinn af ágóða sem ætlaður var af þeim. „Í mörgum tilvikum tókst vel og menn högnuðust á viðskiptunum. Í mun færri skipti tókst ekki eins vel og fjármunir glötuðust.“

Verjandinn sagði einnig að þrátt fyrir að tap hefði orðið á viðskiptum hefði Sigurður reynt að bæta viðskiptavinum sínum tjónið, án þess að það væri honum skylt. Þetta hafi jú verið áhættufjárfesting.

Til að draga það mjög svo stuttlega saman hélt verjandinn því fram að um viðskipti hafi verið að ræða og á stundum lán. Aldrei hafi blekkingum verið beitt til að fá fjármagn frá fólkinu og féð hafi ekki verið notað í eigin þágu. Því eigi verknaðarlýsing í ákæru ekki við og sýkna beri Sigurð. Ef svo einhver telji sig eiga inni fé hjá Sigurði vegna ógreiddra lána beri að reka það í einkamáli. Ekki eigi að innheimta vangoldin lán í sakamáli.

Gekk gott eitt til

Þá fjallaði verjandi Sigurðar töluvert um rannsóknina og fjölmiðlaumfjöllun. Hann sagði að rannsóknartíminn hefði verið óforsvaranlegur og tekið þrjú og hálft ár. Óhagræði Sigurðar hafi verið mikið og lögregla hafi aukið það að mun með framferði sínu. Þegar í upphafi hafi verið búið að taka ákvörðun um að ákæra Sigurð, áður en rannsóknin hófst. Það sjáist best á upplýsingagjöf lögreglunnar til fjölmiðla.

Hann sagði að auðséð væri á upptökum af skýrslutökum yfir vitnum í málinu að þeim hafi verið hagrætt til að skella skuld á Sigurð. Hjá þremur vitnum hafi þau talað um að hafa veitt Sigurði lán en þá hafi upptakan verið stöðvuð. Þegar hún hófst aftur hafi aldrei verið minnst á lán. Framburðurinn breyttist og lán hætti að vera lán. 

Hins vegar sé greinilegt að í mörgum tilvikum hafi einfaldlega verið um lán að ræða og engar blekkingar hafi búið þar að baki. 

Verjandinn sagðist gera sér fulla grein fyrir því að dómarinn þurfi sterk bein til að sýkna Sigurð þegar búið sé að gegnsýra samfélagið allt um sekt hans í gegnum fjölmiðla. En réttlætið verði engu að síður að ná fram í málinu, sama hvað almenningsáliti líði. 

Hann sagði að hér væri um að ræða mann sem þurfti að þola að vera sviptur frelsi sínu í margar vikur, hann hafi þurft að bíða með stöðu grunaðs manns í tæp fjögur ár og orðið þolandi í þeirri óþörfu refsingu að vera úthrópaður í samfélaginu vegna aðfarar lögreglu og mötunar hennar á röngum upplýsingum. Hann sé fjölskyldumaður með börn á framfæri. Eiginkona hans þjáist af illvígum sjúkdómi sem aðeins hafi versnað. Hann hafi því miklum skyldum að gegna.

Bað verjandinn því dómara að sýna þessu skilning fari svo að hann telji Sigurð hafa brotið af sér. Hans þörf sé brýn heima við og frestun refsingar skilorðsbundið nægi til að halda honum frá afbrotum í framtíðinni. Ríkisvaldinu beri að axla ábyrgð á gjörðum starfsmanna sinna sem hafi matað fjölmiðla af röngum upplýsingum.

Að endingu sagði hann að Sigurði hafi gengið gott eitt til, að eiga viðskipti sem áttu að vera ábatasöm fyrir viðskiptavini hans og hann sjálfan.

Aðalmeðferðinni lauk eftir hádegið í dag og hefur málið verið dómtekið. Dómur í máli Sigurðar verður kveðinn upp á næstu vikum.

Frétt mbl.is: „Hann sór við gröf föður síns“

Frétt mbl.is: Mætti ekki fórnarlömbum sínum

Frétt mbl.is: Segist engan hafa svikið

Frétt mbl.is: Sviðin jörð svikara

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert