Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hefur skrifað bók um stjórnmálaferil sinn sem mun koma út í Bandaríkjunum í júní næstkomandi. Í bókinni rifjar hann upp hvernig Besti flokkurinn varð til, fjallar um pólitísku vegferð hans og hvað hann hafi lært af kosningabaráttunni og setu sinni í borgarstjórastólnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bandaríska útgáfufélaginu Melville House, sem mun gefa bókina út.
„Besti flokkurinn er á leiðinni til Bandaríkjanna og heimsins! Allir eiga að hafa rétt á því að kjósa Besta flokkinn! Við erum heimurinn,“ er haft eftir Jóni í tilkynningunni. „Þó að eitthvað sé fyndið og fær þig til að hlæja þarf ekki að þýða að það sé ekki alvarlegt,“ segir hann jafnframt.
Bókin mun bera heitið: Gnarr: How I Became the Mayor of a Large City in Iceland and Changed the World.
Hún kemur út 24. júní næstkomandi og mun Jón Gnarr sjálfur mæta í útgáfuhófið í New York, að því er segir í tilkynningunni.