Kænugarður vel til fundinn

Frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Frá Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. © Elke Wetzig/CC-BY-SA

„Það er afskaplega vel til fundið að nota heitið Kænugarður. Það hefur líka þann afskaplega góða kost að engin vandræði eru með að beygja og skrifa Kænugarður. En Kiev hefur verið skrifað allavega og sýnist sitt hverjum.“

Þetta segir Ari Páll Kristinsson, málfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Vegna atburðanna í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, að undanförnu hefur nafn borgarinnar ýmist verið ritað með því heiti eða erlendu heiti hennar, Kiev. Ari Páll segir ljóst að löng hefð sé fyrir íslenskum nöfnum á heiti ýmissa erlendra borga og þau séu vel þekkt.

Nefnir hann í því sambandi Kaupmannahöfn, höfuðborg Danmerkur, Stokkhólm, höfuðborg Svíþjóðar, og Þórshöfn, höfuðstað Færeyja. Einnig Pétursborg í Rússlandi og Lundúnir, höfuðborg Bretlands. Þar komi Kænugarður einnig við sögu. Einnig hafi nöfn ýmissa borga verið íslenskuð eins og Róm, París og Berlín.

„Það er hins vegar hægt að ganga of langt í slíku, eins og að nota heiti sem koma einungis fyrir í íslensku fornsögunum en hafa ekki verið notuð venjulega eins og Mikligarður fyrir Istanbul í Tyrklandi. En það er afar vel til fundið að halda við þeim hefðum sem til staðar eru á meðan ekki er hætta á neinum misskilningi,“ segir Ari Páll.

Þess má geta að heitið Kænugarður kemur fyrst fyrir í íslenskum fornritum í tengslum við ríki norrænna manna á svæðinu á 9. öld sem nefnt var Garðaríki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert