Sótti að fólki sem átti ekki peninga

„Hann virkaði mjög fjáður, bjó í fínu húsi í fínu hverfi.“ Svona lýsti eitt fórn­ar­lamba Sig­urðar Kára­son­ar hon­um og sam­bæri­leg­ar lýs­ing­ar heyrðust frá fleir­um. Hann kom vel fyr­ir, var vel máli far­inn og ekki stóð á pen­ing­um. Á sama tíma var Sig­urður í gjaldþrotameðferð og hafði eng­ar tekj­ur.

Málið er hið sér­kenni­leg­asta og sagði Jón H.B. Snorra­son, sak­sókn­ari hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, að um væri að ræða stærsta fjár­svika­mál sem hefði komið til kasta lög­regl­unn­ar að því varðaði ein­stak­ling. Þarna hefði verið um að ræða svika­myllu sem sí­fellt krafðist nýrra fórn­ar­lamba. Málið væri ein­stakt og með ólík­ind­um hversu marga ein­um manni tókst að blekkja og hversu mikl­um fjár­mun­um hon­um tókst að ná út úr fólki.

Sig­urður er ákærður fyr­ir að hafa á tíma­bil­inu 2006 til 2010 svikið á annað hundrað millj­ón­ir króna út úr sex­tán ein­stak­ling­um. Sak­sókn­ari sagði hins veg­ar að mun fleiri hefðu verið und­ir í rann­sókn­inni þó ekki all­ir hefðu viljað kæra. Hann sagði einnig að í mörg­um til­vik­um hefði Sig­urður sótt að fólki sem átti ekki pen­inga. En með ein­hverj­um hætti tókst hon­um að fá það til að skuld­setja sig upp í rjáf­ur hjá banka sín­um og færa hon­um pen­ing­ana.

Boðað var að Sig­urður myndi ávarpa dóm­inn í lok aðalmeðferðar, sem lauk við Héraðsdóm Reykja­vík­ur eft­ir há­degið í dag, en af því varð ekki. Urðu áhorf­end­ur í dómsal þar vænt­an­lega af þeirri orðsnilld sem heillað hef­ur fólk upp úr skón­um á umliðnum árum og leitt til þess að það standi svo gott sem ör­eig­ar uppi á eft­ir.

Færi bet­ur ef höfðuð væru einka­mál

Verj­andi Sig­urðar, Björn Ólaf­ur Hall­gríms­son, talaði hins veg­ar máli hans. Hann greindi frá því, sem von var, að Sig­urður sig lýsti sak­laus­an af öll­um kröf­um ákæru­valds­ins og að hann færi fram á að öll­um bóta­kröf­um yrði vísað frá dómi.

Eins og rauði þráður­inn í máli ákæru­valds­ins var að benda á að svo gott sem öll fórn­ar­lömb Sig­urðar hefðu sömu sögu að segja, aðferðarfræði hans væri nán­ast sú sama í öll­um til­vik­um og af­leiðing­ar þess að kynn­ast Sig­urði reynd­ust öll­um til hins verra þá vísaði verj­andi Sig­urðar ansi oft til þess að sjálf­ur væri Sig­urður fórn­ar­lamb; aðstæðna, lög­regl­unn­ar, fjöl­miðla og sam­fé­lags­ins í heild sinni.

Hann fór yfir ákæru­liðina sex­tán en að baki hverj­um og ein­um er ein­stak­ling­ur sem tel­ur sig hafa verið hlunn­far­inn af Sig­urði. Án þess að fara yfir hvern og einn má segja að Sig­urður hafni því staðfast­lega að hafa blekkt nokk­urn mann og hvað þá að hafa leynt því að hann hafi verið í fjárþörf eða að féð hafi verið notað í eig­in þágu sem hann fékk frá fólk­inu.

Sig­urður hafi stundað viðskipti og frum­kvæðið hafi komið frá öðrum en hon­um. Það hafi komið fyr­ir að hann hafi fengið lán frá fólki en í þeim til­vik­um hafi eng­um blekk­ing­um verið beitt. Verknaðarlýs­ing í ákæru sé því röng að öllu leyti. Annaðhvort hafi fólkið vitað um áhættu sína í viðskipt­un­um eða um lán hafi verið að ræða. Séu þau ógreidd skuli höfða einka­mál.

Vildu auðvelda ávöxt­un

Eins og greint var frá á mbl.is á mánu­dag mættu fórn­ar­lömb Sig­urðar fyr­ir dóm­inn og gáfu skýrslu. Þegar allt er virt virðist annaðhvort sem mik­ill mis­skiln­ing­ur hafi ríkt í sam­skipt­um við Sig­urð, eða að ákæru­valdið byggi mál sitt á vel steypt­um grunni. Átak­an­legt var að sjá hvern ein­stak­ling­in á fæt­ur öðrum koma fyr­ir dóm­inn og lýsa sam­skipt­um sín­um við Sig­urð. Í flest­um til­vik­um hóf­ust þau að frum­kvæði Sig­urðar á meðan fólkið lifði sínu hefðbundna lífi, á bens­ín­stöð, á verk­stæði, í mat­vöru­versl­un, kirkju, á veit­ingastað. Það sem þetta fólk átti helst sam­merkt var að þekkja lítið til í viðskipt­um og viðskipta­lífi en vilja þiggja auðvelda ávöxt­un fjár.

Þegar kona ein var spurð hvort henni hefði ekki þótt skrítið að hún var leggja fé inn á reikn­inga til­tek­inna ein­stak­linga sem hún hefði aldrei heyrt um játti hún því. Hún sagðist hafa fengið þær upp­lýs­ing­ar að verið væri að safna upp­hæð og það þyrfti að dreifa pen­ing­un­um. „Mér fannst þetta skrítið,“ sagði hún en milli­færði engu að síður.
Sak­sókn­ari sagði að þarna hefði Sig­urður viðhaldið svika­myllu sinni. Hann hefði fengið fólk til að milla­færa á þá sem harðast sóttu að hon­um um end­ur­greiðslu. „Þarna var um að ræða svika­myllu sem krafðist nýrra og nýrra fórn­ar­lamba, til að standa und­ir kostnaði við sjálf­an sig og fjöl­skyldu sína og til að greiða til þeirra sem hart sóttu að hon­um.“

Einnig benti sak­sókn­ari á að Sig­urður hefði aldrei getað bent á nein gögn sem sýndu fram á þau viðskipti sem hann bauð fórn­ar­lömb­um sín­um að taka þátt í. Lög­regla hefði haft all­ar ban­ka­upp­lýs­ing­ar hans und­ir hönd­um og aðeins séð færsl­ur á milli hans og fórn­ar­lamba hans. Hjá öðrum hefði sést hvernig pen­ing­ar streymdu á milli fórn­ar­lamba, s.s. frá nýj­um til eldri.

Reyndi að bæta öll­um tjón sitt

Verj­andi Sig­urðar lagði áherslu á að það væri ekk­ert sannað í mál­inu að um fjár­svik hefði verði að ræða. Ef ekki var um hefðbund­in áhættu­viðskipti að ræða þá lánuðu þess­ir ein­stak­ling­ar hon­um fé, og vissu all­an tím­ann að hann væri illa stadd­ur fjár­hags­lega.

Þá hefðu verið færðar fram gjör­sam­lega staðlaus­ar og rang­ar staðhæf­ing­ar um að Sig­urður hefði ekki stundað gjald­eyrisviðskipti. Eng­in rök væru fyr­ir því og ekki hægt að saka Sig­urð um að hafa ekki fært lög­reglu gögn þar um. Það væri lög­reglu að rann­saka mál­in og sanna sekt hans, ekki öf­ugt.

Þannig hefði Sig­urður aldrei tekið kvitt­an­ir en treyst viðskipta­vin­um sín­um til að halda utan um viðskipt­in og sjálf­ur lagt töl­ur á minnið. Í ein­staka til­vik­um hefði hann sjálf­ur fært inn í stíla­bók en lög­regla hefði tekið hana í vörsl­ur sín­ar og ekki látið af hendi síðan. Því gæti Sig­urður ekki sannað allt sem hann hefði end­ur­greitt.

Sig­urður hefði reynt að bæta öll­um tjón sitt án þess að það væri hon­um skylt, enda hefðu í mörg­um til­vik­um menn lagt út í áhættu­fjár­fest­ingu. Hann hefði milli­fært á fólkið en einnig greitt í Banda­ríkja­döl­um.

Ákveðið í upp­hafi að ákæra

Meðal þess sem verj­andi Sig­urðar gagn­rýndi einnig var hversu lang­an tíma rann­sókn­in tók. At­vik­in eiga sér stað á ár­un­um 2006-2010 og ákær­an hafi ekki verið gef­in úr fyrr en í fyrra. Þá hafi lög­regla smalað fólki sam­an sem hafi ekki haft í hyggju að kæra og lagt að því kæra Sig­urð. Í upp­hafi hafi lög­regla gefið það út til fjöl­miðla að um hundruð manna væri að ræða og því sem næst hálf­an millj­arð. Af þeim yf­ir­lýs­ing­um sé lítið eft­ir.

Vinnu­brögð lög­reglu hafi langt í frá verið hlut­laus og frá upp­hafi hafi greini­lega verið búið að ákveða að ákæra Sig­urð. Sök­um þess hafi ekki verið litið til þeirra atriða sem leiða til sýknu. Þannig hafi vitni verið hvött til þess í skýrslu­tök­um að nefna ekki að um lán hafi verið að ræða. Skýrslu­tök­ur hafi verið stöðvaðar til þess eins að skýra fyr­ir vitn­um að ekki hafi verið um lán að ræða held­ur fjár­svik.

Enn­frem­ur bygg­ir verj­and­inn á því að dóm­ari þurfi að taka af­stöðu til hvers ákæru­liðar fyr­ir sig og þar sé ávallt orð á móti orði. Vitn­in séu einnig bótakrefjend­ur og hafi því hags­muni að gæta. Því séu öll ákæru­atriði byggð á frá­sögn vitn­is sem hafi hags­muna að gæta.

Og að end­ingu fjallaði verj­andi Sig­urðar um fjöl­miðlaum­fjöll­un um málið. Hann sagði um­fjöll­un fjöl­miðla byggj­ast á röng­um upp­lýs­ing­um frá lög­reglu og að sam­fé­lagið í heild sinni væri þess vegna orðið sann­fært um sekt Sig­urðar. Hann væri út­hrópaður í sam­fé­lag­inu vegna aðfar­ar lög­reglu. Það vværi óheilla­verk og rík­is­valdið ætti að axla ábyrgð.

Hafði ekki tekj­ur til fram­færslu

Óum­deild eru í mál­inu sam­skipti Sig­urðar við fólkið sem tel­ur sig hlunn­farið í sam­skipt­um við hann, fórn­ar­lömb­in í mál­inu. Og óum­deilt er að Sig­urður tók við pen­ing­um frá fólk­inu. En hvort hann hafi beitt blekk­ing­um er það sem ákæru­valdið og verj­anda Sig­urðar grein­ir á um.

Sak­sókn­ari seg­ir að sönn­un byggi á þeim rann­sókn­ar­gögn­um sem lög­regla aflaði, það eru til dæm­is banka­gögn Sig­urðar og banka­gögn fórn­ar­lamba hans. Þá séu frá­sagn­ir fórn­ar­lamba hans á sam­skipt­um við Sig­urð nán­ast ná­kvæm­lega eins, þrátt fyr­ir að fólkið þekk­ist ekki á nokk­urn hátt.

Hann sagði að Sig­urð hafa unnið traust fólks­ins og leynt mjög bágri fjár­hags­stöðu og mikl­um skuld­um. Hann hafi blekkt fólk til að láta hann hafa pen­inga sem hann notaði bæði til að greiða eldri skuld­ir og eins til fram­færslu. Og þegar hann fékk fólk til að greiða inn á reikn­ing annarra hafi hann leynt því að þar var um að ræða fólk í sömu stöðu, þ.e. sem treysti á end­ur­greiðslu og ávöxt­un eft­ir sam­skipti við Sig­urð.

Sak­sókn­ari sagði að fjár­hags­staða Sig­urðar sé bág og hafi verið um langt ára­bil. Eins hafi verið á þessu tíma­bili. Á skatt­fram­töl­um Sig­urðar og eig­in­konu hans megi sjá að tekj­ur séu afar litl­ar og dugi alls ekki til fram­færslu og til að reka ein­býl­is­hús og tvær íbúðir. Fast­eign­irn­ar eru skráðar á eig­in­konu Sig­urðar.

Þá hafi Sig­urður verið eigna­laus á þessu tíma­bili og kom­inn und­ir gjaldþrota­skipti. Hann hafi því verið gjaldþrota þegar hann framdi brot sín. Þessu hafi hann leynt fyr­ir þeim sem hann fékk pen­ing hjá, hvort sem var vegna til­hæfu­lausra viðskipta eða til að fá lán hjá. Hann hafi ekki verið borg­un­ar­maður held­ur fengið féð með blekk­ing­um.

Það hafi sést á framb­urði fólk fyr­ir dóm­in­um að það taldi að þarna væri á ferðinni fjár­sterk­ur maður með mik­il um­svif. En þó rétt hafi verið að hann hafi verið með nokk­ur um­svif þá hafi þau ein­göngu snúið að því að ná fjár­magni út úr fólki og halda því svo góðu þegar það reyndi að end­ur­heimta fé sitt.

Lifði ekki í ímynduðum heimi

Sak­sókn­ari sagði svo að í máli sem þessu mætti jafn­vel trúa því að viðkom­andi, Sig­urður, hefði trúað eig­in sög­um, að hann gæti ávaxtað fyr­ir fólk pen­inga og kom­ist í þá aðstöðu að geta staðið við skuld­bind­ing­ar sín­ar. Það komi fyr­ir að menn trúi eig­in ósk­hyggju. Hátt­semi hans bendi hins veg­ar ekki til þess.

Hann benti á að blekk­ing­ar­leik­ur­inn hafi meðal ann­ars gengið út á að fá aðra til að taka þátt. Hann hafi reynt að fá fólk til að svara sím­töl­um og svara því til að pen­ing­ar væru á leiðinni, meðal ann­ars reyndi hann að fá tvo banka­starfs­menn til að sinna þess­um er­ind­um fyr­ir sig. „Það var ekki einu sinni svo að hann hefði verið í ein­hverri villu eða ímynduðum heimi. Hann var alls ekki þar. Hann reyndi að draga fólk og plata það, fleiri og fleiri, inn í lyga­vef sinn.“

Hvað varðar það að rann­sókn­in hafi dreg­ist sagði sak­sókn­ari að það hefði verið vegna þess að lög­regla hafi haft spurn­ir af sí­fellt fleiri fórn­ar­lömb­um eða til­raun­ar­fórn­ar­lömb­um Sig­urðar. Sum­ir hafi fengið ábend­ingu um að láta hann ekki fá pen­ing og þannig sloppið við gildruna.

Hæsta­rétt­ar verður ef­laust loka­orðið

Sem áður seg­ir þá lauk aðalmeðferð máls­ins í dag og hef­ur málið verið dóm­tekið. Það er dóm­ara að ákveða lykt­ir þess og vafa­laust verður því áfrýjað til Hæsta­rétt­ar hvernig svo sem fer.

Því má við bæta að bæði sat mál­flutn­ing í dag kona sem sagði að bróðir henn­ar hefði lent í klóm Sig­urðar Kára­son­ar en vildi ekki kæra og eins hef­ur blaðamaður fengið tölvu­bréf frá fólki sem seg­ist hafa lent í um­rædd­um manni. Það seg­ir þó ekk­ert um sekt eða sýknu held­ur upp­kveðinn dóm­ur Héraðsdóms Reykja­vík­ur á næstu vik­um, og eft­ir at­vik­um dóm­ur Hæsta­rétt­ar eft­ir það.

Frétt mbl.is: Fjöl­miðlafárið raun­veru­leg refs­ing

Frétt mbl.is: Fleiri tug­ir manna í neti Sig­urðar

Frétt mbl.is: „Hann sór við gröf föður síns“

Frétt mbl.is: Mætti ekki fórn­ar­lömb­um sín­um

Frétt mbl.is: Seg­ist eng­an hafa svikið

Frétt mbl.is: Sviðin jörð svik­ara

Sigurður Kárason
Sig­urður Kára­son mbl.is/​Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert