Sótti að fólki sem átti ekki peninga

„Hann virkaði mjög fjáður, bjó í fínu húsi í fínu hverfi.“ Svona lýsti eitt fórnarlamba Sigurðar Kárasonar honum og sambærilegar lýsingar heyrðust frá fleirum. Hann kom vel fyrir, var vel máli farinn og ekki stóð á peningum. Á sama tíma var Sigurður í gjaldþrotameðferð og hafði engar tekjur.

Málið er hið sérkennilegasta og sagði Jón H.B. Snorrason, saksóknari hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að um væri að ræða stærsta fjársvikamál sem hefði komið til kasta lögreglunnar að því varðaði einstakling. Þarna hefði verið um að ræða svikamyllu sem sífellt krafðist nýrra fórnarlamba. Málið væri einstakt og með ólíkindum hversu marga einum manni tókst að blekkja og hversu miklum fjármunum honum tókst að ná út úr fólki.

Sigurður er ákærður fyrir að hafa á tímabilinu 2006 til 2010 svikið á annað hundrað milljónir króna út úr sextán einstaklingum. Saksóknari sagði hins vegar að mun fleiri hefðu verið undir í rannsókninni þó ekki allir hefðu viljað kæra. Hann sagði einnig að í mörgum tilvikum hefði Sigurður sótt að fólki sem átti ekki peninga. En með einhverjum hætti tókst honum að fá það til að skuldsetja sig upp í rjáfur hjá banka sínum og færa honum peningana.

Boðað var að Sigurður myndi ávarpa dóminn í lok aðalmeðferðar, sem lauk við Héraðsdóm Reykjavíkur eftir hádegið í dag, en af því varð ekki. Urðu áhorfendur í dómsal þar væntanlega af þeirri orðsnilld sem heillað hefur fólk upp úr skónum á umliðnum árum og leitt til þess að það standi svo gott sem öreigar uppi á eftir.

Færi betur ef höfðuð væru einkamál

Verjandi Sigurðar, Björn Ólafur Hallgrímsson, talaði hins vegar máli hans. Hann greindi frá því, sem von var, að Sigurður sig lýsti saklausan af öllum kröfum ákæruvaldsins og að hann færi fram á að öllum bótakröfum yrði vísað frá dómi.

Eins og rauði þráðurinn í máli ákæruvaldsins var að benda á að svo gott sem öll fórnarlömb Sigurðar hefðu sömu sögu að segja, aðferðarfræði hans væri nánast sú sama í öllum tilvikum og afleiðingar þess að kynnast Sigurði reyndust öllum til hins verra þá vísaði verjandi Sigurðar ansi oft til þess að sjálfur væri Sigurður fórnarlamb; aðstæðna, lögreglunnar, fjölmiðla og samfélagsins í heild sinni.

Hann fór yfir ákæruliðina sextán en að baki hverjum og einum er einstaklingur sem telur sig hafa verið hlunnfarinn af Sigurði. Án þess að fara yfir hvern og einn má segja að Sigurður hafni því staðfastlega að hafa blekkt nokkurn mann og hvað þá að hafa leynt því að hann hafi verið í fjárþörf eða að féð hafi verið notað í eigin þágu sem hann fékk frá fólkinu.

Sigurður hafi stundað viðskipti og frumkvæðið hafi komið frá öðrum en honum. Það hafi komið fyrir að hann hafi fengið lán frá fólki en í þeim tilvikum hafi engum blekkingum verið beitt. Verknaðarlýsing í ákæru sé því röng að öllu leyti. Annaðhvort hafi fólkið vitað um áhættu sína í viðskiptunum eða um lán hafi verið að ræða. Séu þau ógreidd skuli höfða einkamál.

Vildu auðvelda ávöxtun

Eins og greint var frá á mbl.is á mánudag mættu fórnarlömb Sigurðar fyrir dóminn og gáfu skýrslu. Þegar allt er virt virðist annaðhvort sem mikill misskilningur hafi ríkt í samskiptum við Sigurð, eða að ákæruvaldið byggi mál sitt á vel steyptum grunni. Átakanlegt var að sjá hvern einstaklingin á fætur öðrum koma fyrir dóminn og lýsa samskiptum sínum við Sigurð. Í flestum tilvikum hófust þau að frumkvæði Sigurðar á meðan fólkið lifði sínu hefðbundna lífi, á bensínstöð, á verkstæði, í matvöruverslun, kirkju, á veitingastað. Það sem þetta fólk átti helst sammerkt var að þekkja lítið til í viðskiptum og viðskiptalífi en vilja þiggja auðvelda ávöxtun fjár.

Þegar kona ein var spurð hvort henni hefði ekki þótt skrítið að hún var leggja fé inn á reikninga tiltekinna einstaklinga sem hún hefði aldrei heyrt um játti hún því. Hún sagðist hafa fengið þær upplýsingar að verið væri að safna upphæð og það þyrfti að dreifa peningunum. „Mér fannst þetta skrítið,“ sagði hún en millifærði engu að síður.
Saksóknari sagði að þarna hefði Sigurður viðhaldið svikamyllu sinni. Hann hefði fengið fólk til að millafæra á þá sem harðast sóttu að honum um endurgreiðslu. „Þarna var um að ræða svikamyllu sem krafðist nýrra og nýrra fórnarlamba, til að standa undir kostnaði við sjálfan sig og fjölskyldu sína og til að greiða til þeirra sem hart sóttu að honum.“

Einnig benti saksóknari á að Sigurður hefði aldrei getað bent á nein gögn sem sýndu fram á þau viðskipti sem hann bauð fórnarlömbum sínum að taka þátt í. Lögregla hefði haft allar bankaupplýsingar hans undir höndum og aðeins séð færslur á milli hans og fórnarlamba hans. Hjá öðrum hefði sést hvernig peningar streymdu á milli fórnarlamba, s.s. frá nýjum til eldri.

Reyndi að bæta öllum tjón sitt

Verjandi Sigurðar lagði áherslu á að það væri ekkert sannað í málinu að um fjársvik hefði verði að ræða. Ef ekki var um hefðbundin áhættuviðskipti að ræða þá lánuðu þessir einstaklingar honum fé, og vissu allan tímann að hann væri illa staddur fjárhagslega.

Þá hefðu verið færðar fram gjörsamlega staðlausar og rangar staðhæfingar um að Sigurður hefði ekki stundað gjaldeyrisviðskipti. Engin rök væru fyrir því og ekki hægt að saka Sigurð um að hafa ekki fært lögreglu gögn þar um. Það væri lögreglu að rannsaka málin og sanna sekt hans, ekki öfugt.

Þannig hefði Sigurður aldrei tekið kvittanir en treyst viðskiptavinum sínum til að halda utan um viðskiptin og sjálfur lagt tölur á minnið. Í einstaka tilvikum hefði hann sjálfur fært inn í stílabók en lögregla hefði tekið hana í vörslur sínar og ekki látið af hendi síðan. Því gæti Sigurður ekki sannað allt sem hann hefði endurgreitt.

Sigurður hefði reynt að bæta öllum tjón sitt án þess að það væri honum skylt, enda hefðu í mörgum tilvikum menn lagt út í áhættufjárfestingu. Hann hefði millifært á fólkið en einnig greitt í Bandaríkjadölum.

Ákveðið í upphafi að ákæra

Meðal þess sem verjandi Sigurðar gagnrýndi einnig var hversu langan tíma rannsóknin tók. Atvikin eiga sér stað á árunum 2006-2010 og ákæran hafi ekki verið gefin úr fyrr en í fyrra. Þá hafi lögregla smalað fólki saman sem hafi ekki haft í hyggju að kæra og lagt að því kæra Sigurð. Í upphafi hafi lögregla gefið það út til fjölmiðla að um hundruð manna væri að ræða og því sem næst hálfan milljarð. Af þeim yfirlýsingum sé lítið eftir.

Vinnubrögð lögreglu hafi langt í frá verið hlutlaus og frá upphafi hafi greinilega verið búið að ákveða að ákæra Sigurð. Sökum þess hafi ekki verið litið til þeirra atriða sem leiða til sýknu. Þannig hafi vitni verið hvött til þess í skýrslutökum að nefna ekki að um lán hafi verið að ræða. Skýrslutökur hafi verið stöðvaðar til þess eins að skýra fyrir vitnum að ekki hafi verið um lán að ræða heldur fjársvik.

Ennfremur byggir verjandinn á því að dómari þurfi að taka afstöðu til hvers ákæruliðar fyrir sig og þar sé ávallt orð á móti orði. Vitnin séu einnig bótakrefjendur og hafi því hagsmuni að gæta. Því séu öll ákæruatriði byggð á frásögn vitnis sem hafi hagsmuna að gæta.

Og að endingu fjallaði verjandi Sigurðar um fjölmiðlaumfjöllun um málið. Hann sagði umfjöllun fjölmiðla byggjast á röngum upplýsingum frá lögreglu og að samfélagið í heild sinni væri þess vegna orðið sannfært um sekt Sigurðar. Hann væri úthrópaður í samfélaginu vegna aðfarar lögreglu. Það vværi óheillaverk og ríkisvaldið ætti að axla ábyrgð.

Hafði ekki tekjur til framfærslu

Óumdeild eru í málinu samskipti Sigurðar við fólkið sem telur sig hlunnfarið í samskiptum við hann, fórnarlömbin í málinu. Og óumdeilt er að Sigurður tók við peningum frá fólkinu. En hvort hann hafi beitt blekkingum er það sem ákæruvaldið og verjanda Sigurðar greinir á um.

Saksóknari segir að sönnun byggi á þeim rannsóknargögnum sem lögregla aflaði, það eru til dæmis bankagögn Sigurðar og bankagögn fórnarlamba hans. Þá séu frásagnir fórnarlamba hans á samskiptum við Sigurð nánast nákvæmlega eins, þrátt fyrir að fólkið þekkist ekki á nokkurn hátt.

Hann sagði að Sigurð hafa unnið traust fólksins og leynt mjög bágri fjárhagsstöðu og miklum skuldum. Hann hafi blekkt fólk til að láta hann hafa peninga sem hann notaði bæði til að greiða eldri skuldir og eins til framfærslu. Og þegar hann fékk fólk til að greiða inn á reikning annarra hafi hann leynt því að þar var um að ræða fólk í sömu stöðu, þ.e. sem treysti á endurgreiðslu og ávöxtun eftir samskipti við Sigurð.

Saksóknari sagði að fjárhagsstaða Sigurðar sé bág og hafi verið um langt árabil. Eins hafi verið á þessu tímabili. Á skattframtölum Sigurðar og eiginkonu hans megi sjá að tekjur séu afar litlar og dugi alls ekki til framfærslu og til að reka einbýlishús og tvær íbúðir. Fasteignirnar eru skráðar á eiginkonu Sigurðar.

Þá hafi Sigurður verið eignalaus á þessu tímabili og kominn undir gjaldþrotaskipti. Hann hafi því verið gjaldþrota þegar hann framdi brot sín. Þessu hafi hann leynt fyrir þeim sem hann fékk pening hjá, hvort sem var vegna tilhæfulausra viðskipta eða til að fá lán hjá. Hann hafi ekki verið borgunarmaður heldur fengið féð með blekkingum.

Það hafi sést á framburði fólk fyrir dóminum að það taldi að þarna væri á ferðinni fjársterkur maður með mikil umsvif. En þó rétt hafi verið að hann hafi verið með nokkur umsvif þá hafi þau eingöngu snúið að því að ná fjármagni út úr fólki og halda því svo góðu þegar það reyndi að endurheimta fé sitt.

Lifði ekki í ímynduðum heimi

Saksóknari sagði svo að í máli sem þessu mætti jafnvel trúa því að viðkomandi, Sigurður, hefði trúað eigin sögum, að hann gæti ávaxtað fyrir fólk peninga og komist í þá aðstöðu að geta staðið við skuldbindingar sínar. Það komi fyrir að menn trúi eigin óskhyggju. Háttsemi hans bendi hins vegar ekki til þess.

Hann benti á að blekkingarleikurinn hafi meðal annars gengið út á að fá aðra til að taka þátt. Hann hafi reynt að fá fólk til að svara símtölum og svara því til að peningar væru á leiðinni, meðal annars reyndi hann að fá tvo bankastarfsmenn til að sinna þessum erindum fyrir sig. „Það var ekki einu sinni svo að hann hefði verið í einhverri villu eða ímynduðum heimi. Hann var alls ekki þar. Hann reyndi að draga fólk og plata það, fleiri og fleiri, inn í lygavef sinn.“

Hvað varðar það að rannsóknin hafi dregist sagði saksóknari að það hefði verið vegna þess að lögregla hafi haft spurnir af sífellt fleiri fórnarlömbum eða tilraunarfórnarlömbum Sigurðar. Sumir hafi fengið ábendingu um að láta hann ekki fá pening og þannig sloppið við gildruna.

Hæstaréttar verður eflaust lokaorðið

Sem áður segir þá lauk aðalmeðferð málsins í dag og hefur málið verið dómtekið. Það er dómara að ákveða lyktir þess og vafalaust verður því áfrýjað til Hæstaréttar hvernig svo sem fer.

Því má við bæta að bæði sat málflutning í dag kona sem sagði að bróðir hennar hefði lent í klóm Sigurðar Kárasonar en vildi ekki kæra og eins hefur blaðamaður fengið tölvubréf frá fólki sem segist hafa lent í umræddum manni. Það segir þó ekkert um sekt eða sýknu heldur uppkveðinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur á næstu vikum, og eftir atvikum dómur Hæstaréttar eftir það.

Frétt mbl.is: Fjölmiðlafárið raunveruleg refsing

Frétt mbl.is: Fleiri tugir manna í neti Sigurðar

Frétt mbl.is: „Hann sór við gröf föður síns“

Frétt mbl.is: Mætti ekki fórnarlömbum sínum

Frétt mbl.is: Segist engan hafa svikið

Frétt mbl.is: Sviðin jörð svikara

Sigurður Kárason
Sigurður Kárason mbl.is/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert