Í dag má búast við vaxandi vindi á landinu. Austan 15-28 m/s sunnantil á landinu og vindhviður allt að 40 m/s frá því um hádegi undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Á sama tíma má einnig búast við hviðum, allt að 30 m/s, á suðvestanverðu landinu, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Einnig er gert ráð fyrir slyddu eða snjókomu með köflum syðst á landinu og því gæti færð spillst þar á köflum um og eftir miðjan dag. Þetta kemur fram í ábendingum veðurfræðings Veðurstofunnar.
Vegir eru að mestu auðir á Suður- og Suðvesturlandi en óveður er á Kjalarnesi. Suðaustanlands eru þó hálkublettir á Reynisfjalli og óveður en einnig er óveður undir Eyjafjöllum.
Það eru hálkublettir á Holtavörðuheiði og Bröttubrekku, eins er sumstaðar hálka eða hálkublettir á útvegum á Vesturlandi.
Á Vestfjörðum er hálka á fjallvegum en hálkublettir víðast hvar á láglendi.
Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Norðurlandi.
Á Austurlandi er víðast hvar hálka en þó sumstaðar hálkublettir. Greiðfært er svo með suðausturströndinni.