Allt er þegar fernt er

Þorsteinn Freyr Eggertsson segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum …
Þorsteinn Freyr Eggertsson segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við heilsugæsluna.

Þorsteinn Freyr Eggertsson hefur undanfarna fjóra daga reynt án árangurs að ná sambandi við lækni á heilsugæslustöðinni í Árbæ, en málið varðar ávísun á lyfseðilsskyldu lyfi. Hann er ósáttur við það hversu langan tíma það hefur tekið að ná í gegn en hann sér loks fram á afgreiðslu málsins í dag. 

„Ef við göngum út frá því að læknir hringi í dag, þá erum við að tala um að það hafi tekið fjóra daga að fá úrvinnslu sinna mála, sem er ekkert flóknara en að hringja inn og biðja lækni að hringja í þig. Þetta er alveg með ólíkindum og fullkomlega óásættanlegt með öllu,“ segir Þorsteinn.

Þá gerir hann athugasemdir við það að í þessu ferli sé ekki kannað hvað það sé í raun sem viðkomandi þurfi á að halda.

„Það er engin sía í gangi til að taka akútið [bráðatilfellin] úr og senda þá á einhver lækni sem myndi neyðast til að taka símann strax - ef tilfellið væri slíkt,“ segir Þorsteinn. Hann tekur hins vegar fram að það eigi ekki við við í hans tilfelli.

Alltaf að slíta og hringja

Þorsteinn gagnrýnir ennfremur símkerfi heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ, því menn lendi ekki í  biðröð sé á tali.

„Það er bara á tali og þú ert ekki númer sex í röðinni eða sextán [...] þetta þýðir að þú verður endalaust að slíta og hringja, slíta og hringja eða þar til þú færð hringitóninn,“ segir hann og bætir við að þetta hafi farið að reyna á taugarnar eftir ítrekaðar tilraunir.

Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að hann hafi fyrst reynt að hafa samband við lækni sl. mánudag, en um er að ræða símatíma þar sem óskað sé eftir að læknir hringi í viðkomandi. Hann bætir við að eingöngu sé hægt að hringja inn á milli kl. 8-9  á morgnana. 

„Á mánudaginn var einfaldlega ekki laus tími,“ segir hann.

Hann náði hins vegar sambandi við hjúkrunarfræðing sem sagði við Þorsteinn að aðeins læknir mætti ávísa lyfinu. Ekki þýddi að hringja í lyfjasímann í þessu tilfelli og því ætti hann að hringja aftur daginn eftir til að óska eftir skynditíma. „En þá lendirðu í forgangi,“ segir Þorsteinn.

Daginn eftir hringir hann aftur í heilsugæsluna og þá er honum tilkynnt að enginn læknir sé að vinna. „Það skipti þá engu máli hvort þetta væri skynditími eða almennur tími; það var bara enginn að vinna. Alveg einstakt ástand.“

Þriðja tilraun var síðan gerð sl. miðvikudag. „Þá var óheppnin aftur að elta mig að því leytinu til að þá var læknir á vakt en ég fékk ekki tíma hjá þeim lækni.“

Hafðist í fjórðu tilraun

Þorsteinn, sem var orðinn óþreyjufullur á þessum tímapunkti, bað starfsmann á skiptiborði um að taka skilaboð en starfsmaðurinn upplýsti Þorstein um að það væri honum óheimilt. Honum var að vísu boðið að koma á heilsugæslustöðina eftir kl. 16 í gær til að hitta lækni, en Þorsteinn sagðist ekki hafa haft tök á því. 

„Ég hringdi síðan í morgun og næ loksins sambandi þar sem ég lendi á þessum lista, að læknir eigi að hringja í mig í dag,“ segir Þorsteinn og bætir við að allt útlit sé fyrir að læknir hafi samband við hann í dag.

„Allt er þegar fernt er“ gæti því verið afbökun á þekktu máltæki sem eigi við um tilraunir Þorsteins.

Þorsteinn er búsettur í Grafarholti sem heilsugæslustöðin í Árbæ þjónustar.
Þorsteinn er búsettur í Grafarholti sem heilsugæslustöðin í Árbæ þjónustar. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka