„Við hvað eru menn hræddir?“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið eru sannfærðir um að engar varanlegar undanþágur eða sérlausnir fáist í viðræðum við sambandið sem máli skipti, hvað er þá að óttast? Þessari spurningu varpaði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, fram í umræðum á Alþingi í dag um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið.

„Það er margt athyglisvert varðandi þessa umræðu og þar á meðal hefur það auðvitað ekki farið framhjá neinum að talsmenn stjórnarflokkanna hér hafa eytt mikilli orku í það að reyna að sannfæra okkur og aðra sem á hlýða um það að það séu engar varanlegar undanþágur eða sérlausnir í boði sem neinu máli skipta. Það sé misskilningur,“ sagði Steingrímur og bætti síðan við:

„Þá veltir maður upp þeirri spurningu, ef það er svo að sannfæring manna er algerlega óbiluð í þessum efnum [...], að við munum engar þær sérlausnir fá frá Evrópusambandinu, varanlegar og handfastar, til dæmis í sjávarútvegsmálum, sem neinu máli skipti, hvað er þá að óttast frá sjónarhóli þeirra sem að ekki vilja ganga í Evrópusambandið? Er þá ekki bara best að fá það á hreint að það sé þannig ef menn trúa því? Málið er þá væntanlega sjálfafgreitt.“

Spurði hann hvort einhverjum dytti í hug að Íslendingar samþykktu að ganga í Evrópusambandið ef það þýddi afsal á forræðinu yfir fiskimiðunum við landið og öðru sem tengdist sjávarútvegi. „Við hvað eru menn hræddir ef menn trúa því virkilega sem menn eru að segja hér, að við munum engar svona lausnir fá. Það sé bara einhver misskilningur. Er þá ekki bara ágætt að fá það endanlega á hreint og þar með er málið afgreitt? Þá hætta menn að tala um það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið.“

Steingrímur sagðist sammála því að vandséð væri hvernig núverandi ríkisstjórn gæti haldið áfram með viðræðurnar við Evrópusambandið, nema fyrst færi fram þjóðaratkvæði um málið. Sagðist hann ekki trúa því að ríkisstjórnin færi ekki að þeirri niðurstöðu. Ef hún vildi ekki gera það hefði hún alltaf þann kost að segja af sér. Sakaði hann Sjálfstæðisflokkinn um að ætla að hafa slíka þjóðaratkvæðagreiðslu af þjóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka