Lionshreyfingin á Íslandi stendur fyrir málþingi í Norræna húsinu í dag, undir yfirskriftinni „Börn í áhættu: Lestrarvandi“.
Viðburðurinn er liður í tíu ára alþjóðlegu átaki Lions gegn ólæsi en í ár er sjónum einkum bent að börnum, þá ekki síst börnum með lesblindu, sjónskertum börnum og börnum innflytjenda.
„Í hinum vestræna heimi er mikið ólæsi, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum,“ segir Guðrún Björt Yngvadóttir, fyrrverandi alþjóðastjórnarmaður Lions. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hún marga í ákveðinni afneitun varðandi ólæsi; fólk haldi jafnvel að ekkert sé að marka rannsóknir og tölfræði sem sýna fram á vandann, en eitt af markmiðum Lions á Íslandi á næstu tíu árum verður einmitt að vekja athygli og umræður um málið.