Á ekki að koma neinum á óvart

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra mbl.is/Eggert

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra vonast til að þingsályktunartillagan um að Ísland dragi til baka umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu komist á dagskrá þingsins eftir helgi. Hann átti jafnframt símtal við Stefan Fule, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, í kvöld þar sem hann greindi honum frá ákvörðun stjórnarflokkanna.

„Það er fullur skilningur á þessari ákvörðun stjórnvalda enda eru þau lýðræðislega kosin til þess, eins og hann hefur sagt, að taka slíkar ákvarðanir,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segist einnig hafa greint nokkrum kollegum sínum utan Íslands frá ákvörðuninni. „Menn tóku það þó vissulega fram að við værum velkomnir í Evrópusambandið,“ bætir hann við.

„Það á ekki að koma neinum á óvart að þessir flokkar taki þessa pólitísku ákvörðun. Ef stefnuyfirlýsingar flokkanna, sem og stjórnarsáttmálinn, eru skoðaðar sést að við erum bara að vinna eftir þeim,“ segir hann.

„Þingsályktunartillagan inniheldur þrennt. Í fyrsta lagi að umsóknin verði dregin til baka. Í öðru lagi er skýrt kveðið á um að við viljum ekki að farið verði í viðræður að nýju, hvenær sem það nú verður, nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan fyrir því er sú að það er mjög mikilvægt að menn hafi skýrt og gott umboð ef menn ætla í slíka vegferð.

Í þriðja lagi viljum við efla og styrkja samstarf okkar við Evrópusambandið,“ nefnir hann.

Hann segir enn fremur að það hafi verið kallað eftir því að það kæmi niðurstaða í þetta mál. Þar af leiðandi sé það jákvætt að nú sé loks búið að taka af skarið.

Aðspurður um hvort ekki hafi komið til greina að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort draga ætti umsóknina til baka segir hann að stjórnarsáttmálinn segi til um hvernig vinna eigi þessi mál.

„Það er í honum talað um þjóðaratkvæðagreiðslu á einum stað og hún er eingöngu ef menn ákveða að halda af stað á nýjan leik. Aðra þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki að finna í þessum sáttmála okkar. Það er það veganesti sem ég hef haft og ríkisstjórnin hefur. Það er ekki hægt að skilja það á neinn annan veg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert