„Ég styð ekki þessa tillögu“

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rósa Braga

„Ég styð ekki þessa tillögu,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, um tillögu stjórnarflokkanna um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Tveir þingmenn flokksins lýstu andstöðu við tillöguna á þingflokksfundi í dag.

„Það er ekki hægt að byggja þessa þingsályktunartillögu á þessari skýrslu sem nú liggur fyrir. Það eru fleiri skýrslur á leiðinni og ég tel að atvinnulíf í landinu og launþegar í landinu eigi að njóta vafans og það eigi að halda áfram að skoða þetta,“ sagði Vilhjálmur í samtali við mbl.is.

Vilhjálmur sagði að afstaða Framsóknarflokksins í þessu máli hefði alla tíð verið skýr. Afstaða flokksins til aðildar að alþjóðasamtökum hefði alltaf verið á þá leið að lýsa andstöðu við aðild að þeim. Framsóknarflokkurinn hefði verið á móti aðild að EFTA og helmingur af flokknum hefði verið á móti aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Afstaða Framsóknarflokksins kæmi því ekki á óvart.

„En ég tel þetta ekki þjóna hagsmunum framtíðarinnar. Við sitjum núna uppi með forréttindafyrirtæki sem njóta evruuppgjörs og evruaðildar, en alþýðan nýtur þess ekki. Slíkt getur ekki gengið upp til framtíðar.

Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki átt að taka þessa afstöðu. Sjálfstæðir Evrópusinnar hafa fært fullgild rök fyrir því að halda viðræðum áfram. Í þessum hópi sem kallar sig Sjálfstæðir Evrópusinnar eru menn sem bera mikla ábyrgð í íslensku samfélagi. Þetta er ekki uppvöðslusamur hópur. Hann tekur vel ígrundaða afstöðu til mála.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert