Löng bið vegna læknaskorts

Ekki er hægt að fá tíma í klíníska myndatöku fyrr …
Ekki er hægt að fá tíma í klíníska myndatöku fyrr en í maí. mbl.is/Heiðar

Biðlistar eftir því að komast í brjóstakrabbameinsleit eru langir og er ekki hægt að fá tíma í klíníska myndatöku fyrr en eftir þrjá mánuði, eða í maí næstkomandi, að sögn Kristjáns Oddssonar, sviðsstjóra Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.

„Þetta byggist fyrst og fremst á því að það eru ekki til læknar,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann bendir þó á að þetta sé ekki séríslenskt fyrirbæri. „Þeir sem starfa við brjóstakrabbameinsleit á til dæmis Norðurlöndunum eru yfirleitt eldri læknar. Innan fimm til sjö ára mun til að mynda helmingur þeirra sem starfa við þetta í Danmörku fara á eftirlaun. Þannig að Danir eru að vakna upp við vondan draum,“ segir hann.

Kristján segir að leitað hafi verið að læknum frá því um seinasta sumar, bæði hérlendis og erlendis, með litlum árangri.

Hann útskýrir að fyrir fimm árum hafi Domus Medica verið ráðinn sem verktaki og séð um brjóstaleitina. Sá samningur hafi hins vegar runnið út um síðustu áramót og þar með hafi læknunum fækkað. Þá hafi margir læknar minnkað við sig vinnu vegna aldurs.

„Ástandið er ekki gott og þetta endurspeglar það. Það er mikill læknaskortur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert