„Ég er dapur yfir þessu. Það var búið að gefa loforð um það fyrir kosningar af formanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins að þessu máli yrði vísað til þjóðarinnar. Nú sýnist mér að menn ætli ekki að standa við það og það kemur mér mjög á óvart,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga ESB umsóknina til baka.
Benedikt segir óyggjandi að flokkurinn hafi svikið kosningaloforð sín sem hann segir einnig óvenjulegt því sjálfstæðismenn séu þekktir fyrir að vera orðheldnir menn.
Ekki er eining innan flokksins um þessa ákvörðun að mati Benedikts en félag hans hefur skorað á þingflokkinn að taka enga ákvörðun um afdrif umsóknarinnar fyrr en skýrsla Alþjóðamálastofnunar HÍ lægi fyrir.