Kirkjufundur prófastdæmanna í Reykjavík samþykkti ályktun þar sem vakin er athygli biskups Íslands, kirkjuráðs og kirkjuþings, á því, að víða er misræmi í þjónustuskyldu presta eftir íbúafjölda og mikilvægt sé að miða þjónustuna meira við íbúafjölda en gert er í dag. Þess vegna er þörf á því að fjölga prestum á höfuðborgarsvæðunum en ekki fækka.
„Ennfremur minnir kirkjufundurinn á, að svo gróflega hafi verið vikið frá því samkomulagi milli ríkis og Þjóðkirkju um kirkjujarðirnar, sem birtist í lögum 78/1997, að við það verði ekki unað. Enda mun sú greiðsla sem birtist í fjárlögum á yfirstandandi ári aðeins duga fyrir u.þ.b. 106 prestsembættum í stað þeirra 138 embætta sem kirkjujarðasamkomulagið kveður á um. Hvetur fundurinn stjórnvöld til leiðréttingar á þessu ástandi þegar í stað, enda hafa þessar vanefndir leitt til óásættanlegs niðurskurðar á allri starfsemi og þjónustu kirkjunnar.“
Kirkjufundurinn beinir þeim eindregnu tilmælum til ríkisstjórnar og Alþingis, að skila til safnaðanna þeim sóknargjöldum, sem innheimt hafa verið og leiðrétta fjárhæð þeirra til samræmis við gildandi lög um sóknargjöld.