Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, greinir frá því í færslu á facebooksíðu sinni í kvöld að hann hafi gert tvær tilraunir til að taka eigið líf þegar hann var 16 ára gamall. Báðar tilraunirnar misheppnuðust og í öðru tilfellanna kom kona honum til bjargar, en þá hafði Jón veitt sér áverka á hendi. Í seinna skiptið tók hann inn lyfið Rohypnol.
Jón skrifar færsluna á ensku. Þar kemur fram að hann hafi talið að eitthvað væri að sér þegar hann var ungur. Hann segir að sumir hafi talið að hann væri þroskaheftur. Jón bætir við að hann hafi ekki notið þeirrar menntunar sem hann átti rétt á; hann hafi orðið fyrir einelti og verið mismunað.
„En það var aldrei neitt að mér. Ég er með röskun í taugaþroska og þjáist af sjaldgæfu mígreni sem kallast mígreni án fyrirboða en einkennunum svipar til heilablóðfalls. Fyrir utan það er ég heilsuhraustur. Ég einfaldlega fæddist svona. Fólk hélt að ég væri „þroskaheftur“ vegna þess að það vissi ekki betur,“ sagði Jón og bætti við að margir teldu hann enn þann dag í dag „vitskertan“.
Jón líkir því mótlæti sem hann hefur þurft að þola við það sem hinsegin fólk standi frammi fyrir. Hann segir að það sé ekkert að því að vera samkynhneigður; sumir fæðist einfaldlega þannig.
Hann beinir orðum sínum að vísindum í lok pistilsins. „Ef það væru ekki til vísindi þá myndi ég eflaust enn halda að það lægi á mér bölvun og að guð væri að reyna mig. Ég væri óöruggur og hræddur, útundan. Og ég væri alls ekki borgarstjóri. Ég gæti auðveldlega verið látinn. Það væri heimskuleg, tilgangslaus sóun. Synd. Rétt eins og hræðsla eða fyrirlitning á samkynhneigð,“ skrifar borgarstjóri Reykjavíkur.