„Við teljum skynsamlegast að leiða aðildarviðræður til lykta og kjósa um aðildarsamning þegar hann liggur fyrir,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og vísar í máli sínu til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.
„Það sem við teljum vera furðulegt í þessu máli er sá asi sem er á þessu. Það er ekkert sem hastar svo að ríkisstjórnin þurfi að taka þessa niðurstöðu núna strax,“ segir Þorsteinn og bendir á að hafi skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands verið ætlað að varpa skýrara ljósi á málið sé mjög einkennilegt að þingsályktunartillaga um slit hafi verið lögð fram í beinu framhaldi.
Mun skynsamlegra hefði verið að hans mati að taka góðan tíma í að vega og meta hagsmuni Íslands áður en farið er í næstu skref.
„Einnig er vert að hafa í huga að við eigum ýmis mikilvæg verk óleyst, s.s. afnám gjaldeyrishafta og mótun nýrrar peningastefnu. Lausn fyrri ríkisstjórnar í þeim efnum var Evrópusambandsaðild og upptaka evru. Þó það sé ekki eina lausnin hefði verið skynsamlegt af þessari ríkisstjórn að móta skýra línu í þeim efnum áður en ákvörðun er tekin um slit.“
Segir Þorsteinn gjaldeyrishöftin valda atvinnulífinu miklum skaða og fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi eigi orðið mjög erfitt með að starfa innan þeirra.