Lengi hafa verið skiptar skoðanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu innan Sjálfstæðisflokksins. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir mikinn meirihluta hafa ráðið þeirri stefnu að flokkurinn beitti sér ekki fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu á meðan minnihluti flokksmanna hafi verið á annarri skoðun.
„Ég hef lagt mig fram um að menn reyndu að halda þannig á málum að það auðveldaði forystu flokksins á hverjum tíma að halda flokknum saman. Í máli sem þessu er vitaskuld mjög erfitt að finna efnislegar málamiðlanir en ýmsir kostir hafa þó verið í þeim efnum,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.
Nefnir hann í því samhengi að hægt hefði verið að taka ákvörðun um að ljúka viðræðum við Evrópusambandið og taka ekki endanlega afstöðu fyrr en ljóst væri hvernig mögulegur aðildarsamningur liti út. Einnig hefði verið hægt að taka ákvörðun um að fresta viðræðum við sambandið ótímabundið í stað þess að slíta þeim að fullu.
„Það var hins vegar ekki hlustað á það. Það varð samkomulag um aðferðina til þess að afgreiða málið sem formaður flokksins bauð upp á af hyggjuviti og stjórnvisku sem fólst í því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda ætti viðræðum áfram eða ekki.“
Þorsteinn bendir á að samkomulag þetta hafi ekki einungis verið sagt í orði heldur kirfilega birt í auglýsingum flokksins.
„Þetta fyrirheit laut að einu stærsta máli sem verið hefur uppi á borði í íslenskum stjórnmálum í langan tíma og var því eitt af stærstu loforðum sem gefið hefur verið í pólitík. Þegar það er svikið þá hljóta að koma fram einhverjir brestir,“ segir Þorsteinn og bætir við að mun auðveldara hefði verið fyrir forystuna að halda flokknum saman, þrátt fyrir málefnaágreining, hefði hún staðið við eigin fyrirheit.
Aðspurður segir Þorsteinn efnislega afstöðu forystu Sjálfstæðisflokksins byggjast á skammsýni í stað langtímahagsmuna Íslands. „Þessi formlega afstaða að hafna því sem forystan bauð upp á í kosningunum, að þjóðin tæki ákvörðunina, er afskaplega misráðin.“
Þorsteinn segir mikla óánægju vera í röðum þeirra sem trú höfðu á loforðum flokksforystunnar. „Það brestur einhver strengur í hjartanu þegar svona atburðir verða.“
Spurður hvort hann telji líkur á einhverjum afleiðingum vegna ákvörðunar forystu Sjálfstæðisflokksins svarar Þorsteinn: „Stjórnmálasagan segir manni það að svona stór svik hafa aldrei verið án einhverra afleiðinga. Um það getur maður þó ekki sagt. Stundum verður ólga innan flokka af einhverjum tilvikum og hún fjarar út en í öðrum tilvikum leiðir hún til frekari atburða.“
Aðspurður segir hann stöðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, geta veikst vegna málsins. „Ég held að allir sem gefa stór loforð og svíkja þau standi á veikari fótum á eftir,“ segir Þorsteinn og bætir við að hann muni ekki eftir því að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi svikið gefið loforð með jafnafgerandi hætti.
Í þessu samhengi segir Þorsteinn samsteypustjórnir byggjast á málamiðlunum þar sem flokkar geti oft ekki efnt öll gefin loforð. „Ég trúi ekki að svo stóru loforði, í jafnstóru máli, hafi verið fórnað fyrir ráðherrastóla.“
Spurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi hugsanlega verið að gefa eftir vegna þrýstings frá samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn svarar Þorsteinn: „Ég þekki auðvitað ekki innviði stjórnarsamstarfsins en málið snýr þannig við mér.“