Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni hvergi hvika þrátt fyrir mótstöðu. „Sú mikla varnarbarátta sem nú er háð gegn hreyfiafli breytinganna, bæði í fjölmiðlum og annars staðar í samfélaginu, hefur ekki farið fram hjá neinum og er skýrt merki þess að breytingarnar séu byrjaðar að skila árangri,“ segir Sigmundur í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær.
Grein forsætisráðherra ber yfirskriftina: „Við vorum kosin til að gera breytingar“.
Hann segir að síðustu alþingiskosningar hafi fyrst og fremst snúist um þær breytingar sem nauðsynlegt sé að gera til að koma samfélaginu upp úr hjólförunum, en hann bætir við að óþreyjan sé mikil.
„Núverandi ríkisstjórnarflokkar fengu mjög afdráttarlaus skilaboð í alþingiskosningunum. Þau skilaboð tökum við alvarlega. Við vorum kosin til að gera breytingar. Það erum við að gera og munum gera áfram,“ skrifar Sigmundur.
Hann tekur fram að breytingar mæti iðulega mótspyrnu, og miklar breytingar mæti mikilli mótspyrnu og hún geti tekið á sig ýmsar myndir.
„Gagnrýni og rökræða eru nauðsynleg í lýðræðissamfélagi. Þegar ráðist er samtímis í margar stórar og afgerandi samfélagslegar breytingar sem skipta máli fyrir afkomu heimilanna, skipan fjármálakerfisins, samskipti okkar við umheiminn og komið í veg fyrir að kröfuhöfum bankanna séu tryggð þau sérkjör sem einhverjir þeirra virðast hafa haft væntingar um, þá þarf ekki að koma á óvart að mótstaðan verði bæði mikil og áköf og gangi jafnvel lengra en talist getur til eðlilegrar gagnrýni,“ skrifar Sigmundur.
Í greininni kemur ennfremur fram að efnahagslífið sé að taka við sér með verulega auknum hagvexti. Merki um framfarir blasi við og framundan séu stór verkefni og mikilvægar breytingar.
„Ein þeirra er afnám fjármagnshafta, sem nú er unnið að með skipulegum hætti. Um er að ræða grundvallarmál sem snertir líf allra landsmanna og komandi kynslóða Íslendinga. Inn í það mál blandast gífurlegir hagsmunir vogunarsjóða sem eiga kröfur í þrotabú föllnu bankanna. Skuldaskil þeirra eru eitt þeirra verkefna sem leysa þarf af kostgæfni og með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í fyrirrúmi, svo að hægt sé að afnema fjármagnshöft. Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur og íslenskt atvinnulíf taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan aðrir eru skildir eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna,“ skrifar Sigmundur.
„Það er skiljanlegt að þeir sem eiga gífurlegra fjárhagslegra hagsmuna að gæta við uppgjör föllnu bankanna reyni að verja þá hagsmuni með kjafti og klóm. En ríkisstjórnin mun ekki undir nokkrum kringumstæðum fórna langtímahagsmunum komandi kynslóða við skuldaskil fallinna banka. Því er óhætt að treysta,“ heldur ráðherrann áfram.
Í lok greinarinnar segir Sigmundur að það sé ástæða til að vera mjög bjartsýnn á framtíð Íslands.
„Þó að breytingar mæti alltaf mótstöðu, þeim mun meiri mótstöðu eftir því sem hagsmunirnir eru meiri, þá mun ríkisstjórnin hvergi hvika. Við vorum kosin til að gera breytingar og það munum við gera.“