Undirskriftum safnað gegn afturköllun

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

„Ég ýtti þessu bara af stað snemma í morgun fyrst enginn annar var búinn að taka af skarið,“ segir Einar Karl Friðriksson efnafræðingur en hann hefur sett af stað undirskriftalista á netinu þar sem skorað er á ríkisstjórnina að draga ekki til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

Þegar mbl.is náði tali af Einari Karli höfðu þegar um 2.500 manns ritað nafn sitt á listann.

Aðspurður segist hann vera óflokksbundinn og hvorki vera sérstakur stuðningsmaður né andstæðingur hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

„Mér finnst liggja fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir töluðu báðir um að halda ætti þjóðaratkvæðagreiðslu áður en aðildarviðræðum yrði haldið áfram. Með síðustu yfirlýsingu, um að slíta eigi formlega viðræðum við sambandið, finnst mér alger óvissa um hvort flokkarnir geti staðið við það.“

Spurður hvað hann vonist eftir mörgum undirskriftum og hvað hann hafi í hyggju að gera við listann svarar Einar Karl: „Ég vonast eftir því að nógu margir skrifi undir til þess að hlustað verði á kröfuna.“ Listinn gæti svo síðar verið afhentur utanríkisráðherra.

Einar Karl segir kröfuna skýra: Að stjórnvöld staldri við og leyfi bæði þjóð og þingmönnum að ræða málið vel áður en frekari skref verða tekin varðandi aðildarviðræðurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka