Veiðigjöldin nífölduðust á fjórum árum

Fiskveiðiflotinn í Reykjavíkurhöfn.
Fiskveiðiflotinn í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Ómar

Veiðigjöld nærri því nífölduðust á árunum 2009 til 2012. Hæstu veiðigjöldin á hvern íbúa eru í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði og í Grindavík.

Þetta kemur fram í frétt á vefnum T24. Upplýsingarnar byggjast á skriflegu svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, um skatttekjur ríkissjóðs.

Í fréttinni segir að veiðigjöld á hvern íbúa í Vestmannaeyjum séu nær sextán sinnum hærri en í Reykjavík, þó að í heild greiði útgerðarfyrirtæki í Reykjavík samtals hæstu veiðigjöldin.

Í heild voru veiðigjöld í Reykjavík og Vestmannaeyjum um ellefu sinnum hærri árið 2012 en þau voru árið 2009. Þá greiddu fyrirtæki á Akureyri tólf sinnum hærri gjöld 2012 en 2009 og í Fjarðabyggð hækkuðu gjöldin meira en fjórtánfalt.

Alls námu veiðigjöld um 332 þúsundum króna á hvern íbúa í Vestmannaeyjum árið 2012. Það er um 302 þúsund króna hækkun frá árinu 2009.

„Hækkun veiðigjaldsins á hvern íbúa á Höfn í Hornafirði var 218 þúsund og í Grindavík nær 182 þúsund krónur,“ segir jafnframt í fréttinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert