Ætti ekki að koma neinum á óvart

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Þingsályktunartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið felur aðeins í sér formlega afgreiðslu á stefnu sem ríkisstjórnin hefur haft í Evrópumálum. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2. Ríkisstjórnin væri andvíg inngöngu í Evrópusambandið sem ætti ekki að koma neinum á óvart. Umræðan um málið væri því að hans mati nokkuð undarleg.

Spurður hvort ekki hefði verið hægt að hafa umsóknina áfram í hléi sagði Sigmundur það ekki hafa verið valkost í stöðunni enda hefði Evrópusambandið gefið það út að það þyrfti að fá niðurstöðu í málið. Spurður um afstöðu atvinnulífsins til málsins sagði forsætisráðherra að það færi svolítið eftir því hvern væri talað við hvaða afstöðu hann hefði. Hann minnti hins vegar á að þau fyrirtæki sem gagnrýndu krónuna hefðu byggt sig upp hér á landi með hana og slíkt yrði áfram hægt.

Benti hann á að staða fyrirtækja hefði verið að batna að undanförnu, hagvöxtur að aukast og atvinnuleysi að minnka á meðan þróunin innan Evrópusambandsins hefði verið önnur. Stærð gjaldmiðla væri ekki það sem mestu skipti heldur hvernig haldið væri á efnahagsmálum. Þannig hefðu Svíar tekið til í sínum efnahagsmálum og fyrir vikið væri sænska krónan stöðugri gjaldmiðill en evran.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert