Rætt verður um Evrópumálin á Alþingi í dag en Gunnar Bragi Sveinsson utanríkiráðherra mun mæla fyrir þingsályktunartillögu, sem birtist á vef Alþingis á föstudaginn, um að draga eigi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Tillagan verður í kjölfarið til umræðu.
Þingfundur hefst klukkan þrjú en fyrst á dagskrá verða óundirbúnar fyrirspurnir þingmanna til ráðherra.
Þá verður skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræðurnar áfram rædd.
Um 12.600 Íslendingar hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að draga ekki til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Undirskriftasöfnunin var sett af stað í gærmorgun.
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli þegar þingfundur hefst klukkan þrjú í dag. Pétur Helgason stendur fyrir mótmælunum en á facebooksíðu viðburðarins segir að krafan sé að umsókn Íslands verði ekki dregin til baka nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðsu. Hún skal haldin ekki síðar en 31. júlí næstkomandi.
Í morgun óskaði þingflokkur Pírata eftir meðflutningsmönnum að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Vill þingflokkurinn að kosið verði um hvort halda eigi aðildarviðræðunum áfram við Evrópusambandið. Samþykkja þarf slíka tillögu fyrir næsta föstudag, 28. febrúar.