Samþykkt var að halda kvöldfund á Alþingi í kvöld þar sem rætt verður um skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðuna í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Hart var tekist á um þá ákvörðun og farið fram á nafnakall. Stjórnarandstæðingar kölluðu aðallega eftir rökum fyrir ákvörðuninni.
Meðal þeirra sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu var Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, sem sagðist á móti kvöldfundi enda hefði undanfarnar vikur og mánuði ekki þurft að halda neina kvöldfundi þar sem engin mál kæmu frá ríkisstjórninni. Hann samþykkti ekki kvöldfund til að ræða skýrslu sem ríkisstjórnin ætlaði sér svo ekkert að gera með.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á að ekki þyrfti að fara fram á lengri þingfund á morgun og hægt að ræða til miðnættis. Hún sagði því enga ástæðu til að halda lengri fund í dag.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist hlakka mest til að heyra atkvæðaskýringu Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem hefði ávallt stutt kvöldfundi á síðasta kjörtímabili og talað fyrir þeim.
Össur kom síðar og sagði að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga til baka og slíta viðræðum við Evrópusambandið væri einhver hin óþarfasta tillaga sem rekið hefði á fjörur þingsins. „Fyrr skal ég dauður liggja en greiða för hennar á dagskrá þingsins.“
Bæði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður sama flokks, bentu á að takmarkaður ræðutími væri í umræðunni. Fyrri ræða væri fimmtán mínútur og seinni ræða fimm mínútur. Því lægi fyrir að umræðan um skýrsluna kláraðist á morgun. Þær sögðust því ekki skilja hvers vegna þyrfti að lengja þingfund í kvöld.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði þetta merki um að keyra ætti tillögu utanríkisráðherra í gegnum þingið. Það ætti að keyra viðræðuslitin í gegn og það væri fyrir neðan virðingu þingsins.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, sagði einnig að verið væri að keyra í gegn tillögu utanríkisráðherra og lýsti því sem svo að honum liði sem verið væri að reyna troða ofan í hann illa lyktandi, skítugum lopasokk.
Að lokum kom í ljós að kvöldfundur var samþykktur með 31 atkvæði gegn 21 atkvæði. Átta þingmenn voru fjarstaddir.