Félög sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu lýsa yfir stuðningi við þá ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að styðja tillögu til þingsályktunar um að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
„Stjórnir fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Rangárvallasýslu, Sjálfstæðisfélagsins Fróða, Sjálfstæðisfélagsins Kára og Fjölnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu lýsa stuðningi við þá ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að styðja tillögu til þingsályktunar um að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.“ Þar segir ennfremur:
„Sú ákvörðun þingflokksins er í fullu samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins frá síðasta landsfundi þar sem ályktað var að hagsmunum Íslands væri betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Landsfundur áréttaði einnig að aðildarviðræðum við ESB skyldi hætt og þær ekki teknar upp að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er að mati ofangreindra stjórna að framfylgja þeirri stefnu sem æðsta vald í málefnum flokksins markaði í aðdraganda síðustu þingkosninga.“
Frétt mbl.is: Fagna því að umsóknin sé dregin til baka