„Ég er öll dofin í líkamanum, þetta er svo hræðilegt,“ segir Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna '78, en forseti Úganda, Yoweri Museveni, hefur nú skrifað undir umdeild lög er herða viðurlög við samkynhneigð í landinu. Samkvæmt lögunum er hægt að refsa samkynhneigðum með lífstíðarfangelsisdómi.
Samtökin '78 hafa átt í miklu samstarfi við systursamtök sín í Úganda og hefur Anna Pála því fylgst með málinu þróast dag frá degi. „Fólk er bara ofboðslega hrætt. Það er búið að lögleiða ofsóknir á hendur því, enginn veit hvað kemur næst og ég finn að fólk óttast virkilega um líf sitt og öryggi,“ segir Anna Pála
Hún segir að nú reyni á alþjóðasamfélagið að mótmæla, því mótmæli af þessu tagi teljist nú orðið lögbrot í Úganda samkvæmt hinum nýsamþykktu lögum. „Nú má ekki aðhafast neitt í þágu baráttu hinsegin fólks í Úganda og það er því ekki sniðugt að fólk efni til mótmæla þar.“
Hún segist þó verða vör við ótrúlegt hugrekki hjá fólki og nefnir meðal annars að Kasha Jacqueline, talsmaður samkynhneigðra í Úganda, hafi í dag sagt á twittersíðu sinni að nú væri hún orðin glæpamaður, þar sem hún væri lesbía. „Það er ótrúleg samstaða innan hinsegin samfélagsins um að láta ekki brjóta sig á bak aftur. Sumir munu setja baráttuna í fyrirrúm þar sem þeim finnst annars ekki vert að lifa sínu lífi.“
Anna Pála segir að það hafi legið í loftinu í töluverðan tíma að lögin yrðu samþykkt og því sé þegar búið að skipuleggja átak til þess að fá Íslendinga til að sýna málinu stuðning, baráttan sé dýr og söfnun því nauðsynleg.
Heimildamyndin „Call me Kuchu“ verður sýnd í Bíó Paradís klukkan 18:00 næstkomandi fimmtudag. Í lok myndarinnar mun Angel P'ojara, ein besta vinkona baráttukonunnar Köshu Jacqueline, svara spurningum frá áhorfendum.
Þá verður einnig efnt til tónleika í Hörpu hinn 6. mars næstkomandi klukkan 20:00 þar sem Hinsegin kórinn, Sigga Beinteins & Stjórnin, Páll Óskar og Retro Stefson munu koma fram.