Þrennt var aðallega gagnrýnt

Þrennt var það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu hvað helst í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag; tímasetning þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, hvernig hún var kynnt og að hún skyldi vera tekin á dagskrá þingfundar. Gagnrýnin beindist þá helst að forseta þingsins.

Fyrir lá að halda áfram umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um stöðu aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Umræðan hófst á miðvikudag í síðustu viku og hélt áfram á fimmtudag. Enginn þingfundur var á föstudag en, eins og Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, orðaði það, þá var um kvöldmatarleytið þann dag varpað sprengju inn í umræðuna.

Þá fengu þingmenn smáskilaboð frá Alþingi með tilkynningu um að þingskjali hefði verið dreift utan þingfundar. Þar var um að ræða þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga beri aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Nokkrir þingmenn gerðu athugasemd við að tillagan hefði verið lögð fram með þessum hætti og sagðist Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, ákaflega ósáttur við vinnubrögð forseta Alþingis í þeim efnum. Með því að dreifa þingskjalinu utan þingfundar hefði hann brotið vinnureglur. Meginreglan væri að dreifa þingmálum á þingfundum og þótt heimild væri fyrir því að dreifa þeim á vefnum utan þingfunda þyrfti að liggja fyrir því góð og gild ástæða.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingsins, svaraði því til að hann hefði metið stöðuna þannig eftir þingflokksfundi stjórnarflokkanna á föstudag, þar sem fjallað var um þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, að það hefði verið í þágu þingsins að hún kæmi fram strax, og þá utan þingfunda.

Þingmenn ekki jafnsettir

Þá var gagnrýnt að utanríkisráðherra hefði lagt þingsályktunartillöguna fram áður en umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar væri lokið. Vísuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar á það, að sú skýrsla ætti að vera til ítarlegrar umræðu og næstu skref Íslands í aðildarviðræðunum að grundvallast á þeirri umræðu. Þingmenn sögðust efast stórlega um að þingsályktunartillagan hefði verið samin eftir að skýrslan var gerð opinber og á grundvelli hennar. Spurðu þeir að því í tilefni hvers vegna væri yfirleitt verið að ræða um skýrsluna á þingfundi, s.s. ef hún hefði ekkert gildi í umræðunni.

Steingrímur benti á að umræðan væri langt á veg komin og því væri fráleitt að leggja fram þingsályktunartillög um að draga umsóknina til baka á þessum tímapunkti. Tillagan hefði átt að liggja fyrir áður en umræðan um skýrsluna hófst eða lögð fram eftir umræðuna. Þingmenn hefðu þegar tekið þátt í umræðunni og jafnvel klárað báðar ræður sínar, þær hefðu ekki verið byggðar á því að tillaga um að slíta viðræðum væri komin fram og þannig væru þeir jafnsettir þeim sem ættu eftir að halda ræður.

Tillagan var tekin af dagskrá

Einnig var það gagnrýnt að þingsályktunartillaga Gunnars Braga hefði verið sett á dagskrá þingsins fyrir daginn í dag. Sú gagnrýni sást strax á fundi þingflokksformanna með forseta Alþingis fyrir þingfund en þá gengu nokkrir þeirra af fundi í mótmælaskyni. Þegar nær dró þingfundi ákvað forseti þingsins að verða við kröfum stjórnarandstæðinga og tók tillöguna af dagskrá þingsins.

Gunnar Bragi lýsti því yfir á þingfundinum að hann væri ósáttur við þessa ákvörðun forseta Alþingis. Hann sagðist ekki skilja rök forseta Alþingis fyrir því að verða við kröfu stjórnarandstæðinga, mótmælti því og óskaði eftir að málið yrði sett aftur á dagskrá.

Einar K. sagðist hafa talið það eðlilegt að setja málið á dagskrá en eftir að hafa hlýtt á mótmæli annarra teldi hann skynsamlegt að leita sátta um málsmeðferðina og taka tillöguna af dagskrá.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðust óttast að til stæði að keyra þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í gegnum þingið og óskuðu eftir því að tillagan yrði ekki sett á dagskrá þingsins að nýju fyrr en umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunarværié lokið, hún send utanríkismálanefnd til yfirferðar og henni lokið.

Í máli forseta þingsins kom fram að tillögur þess efnis að skýrslunni yrði vísað til nefndar eftir umræðuna hefði komið fram og að hann væri sammála þeim. Hann gaf hins vegar ekkert upp um það hvort tillaga utanríkisráðherra yrði sett á dagskrá eftir yfirferð utanríkismálanefndar, eða fyrr.

Óskuðu eftir skýrum svörum

Þegar umræðu um störf þingsins lauk voru teknar fyrir óundirbúnar fyrirspurnir. Eftir það var komið að umræðu um skýrsluna. Þá tók hins vegar aftur við umræða um störf þingsins þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar óskuðu eftir skýrum svörum um þinglega meðferð skýrslunnar og hvort atkvæðagreiðsla um að slíta viðræðum við Evrópusambandið færi ekki örugglega fram eftir að skýrslan væri komin til baka frá utanríkismálanefnd. „Það er ómögulegt að tjá sig um skýrsluna þegar við vitum ekki hvernig fer með hana,“ sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Engin svör fengust og hélt umræðan um skýrsluna áfram. Þegar þetta er skrifað eru enn fimmtán þingmenn á mælendaskrá.

Bein útsending frá Alþingi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert