Fimmtíu ár frá fyrstu mynd Sigmúnds

Fyrsta mynd Sigmúnds Jóhanssonar í Morgunblaðinu 25. febrúar 1964. Hún …
Fyrsta mynd Sigmúnds Jóhanssonar í Morgunblaðinu 25. febrúar 1964. Hún var teiknuð eftir að Frakkar urðu fyrstir í land í Surtsey.

Fimmtíu ár eru í dag frá því fyrsta mynd teiknarans Sigmúnd Johanson Baldvinsen birtist í Morgunblaðinu. Franskir ævintýramenn á vegum blaðsins Paris Match urðu fyrstir til að stíga á land í Surtsey og varð sú landganga efni fyrstu myndar Sigmúnds í Morgunblaðinu 25. febrúar 1964.

Fyrstu árin birtust tvær til þrjár myndir Sigmúnds í hverri viku og teikningin var þá aukavinna hans með starfi við verkstjórn í frystihúsum í Vestmannaeyjum. Í Heimaeyjargosinu 1973 urðu þau tímamót að Sigmúnd var fastráðinn við Morgunblaðið og teikningin varð hans aðalstarf.

Sigmúnd teiknaði skopmyndir í Morgunblaðið um áratugaskeið. Árið 2004 keypti ríkið tíu þúsund teikningar hans og má flestar þeirra sjá á Sigmúnd-vefnum. Í viðtali við Guðna Einarsson, blaðamann Morgunblaðsins, í tilefni af kaupum ríkisins á teikningum sagði Sigmúnd: „Þar [í Barnaskólanum á Akureyri] var kennslukona sem kenndi mér „trixið“. Uppskriftin hennar var: Lokaðu bara augunum og teiknaðu það sem þú sérð! Ég notaði þessa aðferð lengi en þarf ekki lengur að loka augunum til að sjá hvað ég á að teikna. Ég hef oft hugsað til þessarar konu með hlýhug.“

Miðvikudaginn 22. október 2008 var tikynnt um það að samkomulag hefði náðst á milli Morgunblaðsins og Sigmúnds um að hann hætti að teikna fyrir blaðið. Síðasta mynd hans í Morgunblaðinu birtist tveimur dögum áður, 20. október 2008.

Hér má lesa viðtalið við Sigmúnd

Síðasta mynd Sigmúnds í Morgunblaðinu, 20. október 2008.
Síðasta mynd Sigmúnds í Morgunblaðinu, 20. október 2008.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert