Þingfundi Alþingis var slitið klukkan 23.40 í kvöld, tuttugu mínútum fyrr en áætlað var, sökum þess að Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, sem átti að fara flytja ræðu óskaði eftir að forsætisráðherra og fjármálaráðherra yrðu viðstaddir. Ekki var hægt að kalla þá út með svo stuttum fyrirvara.
Áður en til þess kom höfðu þingmenn karpað lengi saman undir liðnum fundarstjórn forseta og flestir þingmenn stjórnarandstöðunnar farið fram á að þingfundi yrði slitið. Forseti hugsðist ekki ætla að slíta þingfundi og bað Steingrím að hefja ræðu sína. Brá Steingrímur þá á það ráð að óska eftir nærveru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.
Forseti skýrði fyrir Steingrími að hann hefði lítil ráð til að kalla þá út með svo skömmum fyrirvara auk þess sem utanríkisráðherra væri í salnum. Steingrímur sagði þingvenju fyrir því að óska eftir nærveru ráðherra, ráðherrar séu þingmenn og þeim beri að sinna þingskyldu og mæta á þingfundi.
Eftir þau orðaskipti frestaði forseti þingfundi í stutta stund. Eftir að fundi var framhaldið skýrði hann aftur fyrir Steingrími að ráðherrarnir gætu ekki verið í salnum. Hann spurði Steingrím hvort hann vildi halda ræðuna án þess að þeir væru í þingsal.
Steingrímur sagðist ekki vilja gera það og sagðist forseti þá mjög óánægður með að Steingrímur hafi aðeins gert viðvart um þessa ósk sína þegar hann steig upp í ræðustól en ekki fyrr. Hann sagði þá að ekki væri hægt að halda fundinum áfram og sleit honum.
Næsti þingfundur hefst klukkan þrjú á morgun.