Magnús Halldórsson, blaðamaður vefritsins Kjarnans, gerir að umtalsefni samtarf 365 miðla og Vefpressunar á samfélagsvefnum Facebook. Hann kallar Jón Ásgeir Jóhannesson „hvítflibbaglæpamann“ sem færi út kvíarnar skömmu fyrir aðalmeðferð í máli þar sem hann er sakaður um að „stela um 700 milljónum út úr Glitni“.
Tilefnið er samstarf vefmiðilsins Eyjunnar, sem er rekið af Vefpressunni, og 365 miðla. Stendur til að ritstjóri Eyjunnar og útgefandi sama miðils stýri sjónvarpsþætti sem sýndur verður á Stöð 2 auk þess sem gefið verður út blað í nafni Eyjunnar og dreift með Fréttablaðinu.
Magnús starfaði áður hjá 365 miðlum en lét af störfum nokkru eftir að hann ritaði grein á fréttavefinn Vísi sem bar heitið „Litli karlinn“. Þar rakti Magnús mál sem voru til rannsóknar og Jón Ásgeir tengdist. Einnig að eftir að Jón Ásgeir var ákærður í svonefndu Aurum-máli hafi hann verið gerður að yfirmanni þróunarverkefna hjá 365.
„Það versta er að Jón Ásgeir hefur í nokkur skipti að undanförnu, reynt með ósmekklegum hætti, að því er mér finnst, að setja þrýsting á blaðamenn með því að koma umkvörtunum, vegna sannra og löglegra frétta um hann, félög sem hann tengist og dómsmál er hann tengist persónulega, til stjórnar fyrirtækisins og æðstu stjórnenda,“ skrifaði Magnús.
Á Facebook síðu sína í kvöld skrifar svo Magnús: „Ok. Tvídæmdi hvítflibbaglæpamaðurinn Jón Ásgeir Jóhanesson færir út kvíarnar í fjölmiðlarekstrinum sínum, rétt áður en hann situr aðalmeðferðina í máli ákærenda ríkisins gegn honum þar sem hann er sakaður um að stela um 700 milljónum út úr Glitni, með umboðssvikum í samstarfi við aðra. Þetta er líklega rökrétt framhald af þeim athyglisverðu tímum sem við lifum núna.“