Ráðherra sakaður um rógburð

Stjórnarandstæðingar kröfðu Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra, um afsökunarbeiðni á Alþingi í kvöld vegna greinargerðar sem fylgdi þingsályktunartillögu hans um að draga til baka umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Þar væri því haldið fram að þingmenn hefðu ekki greitt atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni þegar samþykkt hefði verið á Alþingi sumarið 2009 að sækja um inngöngu í sambandið.

Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sendi bréf til forsætisnefndar Alþingis í dag þar sem hún gerði athugasemdir við greinargerðina. Forsætisnefnd fundaði um málið í kvöld. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, lýsti því yfir eftir fundinn að ekki væru fordæmi fyrir því að forseti þingsins skipti sér af greinargerðum þingsályktunartillagna. Þær væru á ábyrgð þeirra sem legðu þær fram. Bregðast mætti við athugasemdum við mál í meðförum þingsins. Sagðist hann engu að síður hafa komið athugasemdum Katrínar á framfæri við utanríkisráðherra.

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í forsætisnefnd, sagði að hart hefði verið tekist á um málið í nefndinni. Hann sagðist telja að slíta ætti fundi, eða allavega fresta fundinum, þar til utanríkisráðherra hefði gert breytingar á greinargerðinni. Var ráðherrann sakaður um rógburð af þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Utanríkisráðherra var staddur í þinghúsinu og kölluðu stjórnarandstæðingar eftir því að hann kæmi í ræðustól og gerði grein fyrir því hvernig hann ætlaði að bregðast við málinu. Því varð hann hins vegar ekki við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert