Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir að formlegt hlé verði gert á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Ríkisstjórninni verði falið að gera Evrópusambandinu grein fyrir þeirri niðurstöðu. Ennfremur álykti Alþingi að aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram eða þær teknar upp á nýjan leik nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu og að efnt verði til hennar fyrir lok kjörtímabilsins.
„Þessi tillaga er hugsuð sem framlag til að finna málinu ábyrgan og ásættanlegan farveg fyrir sem allra flesta án tillits til efnislegrar afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Með þessu móti ætti einnig að vera unnt að skapa festu og traust í samskiptum Íslands við Evrópusambandið sem þrátt fyrir allt er einn mikilvægasti samstarfsaðili Íslands á alþjóðavettvangi. Flutningsmenn tillögunnar leggja áherslu á að fram að þjóðaratkvæðagreiðslu starfi þverpólitískur hópur þingmanna allra stjórnmálasamtaka að upplýstri umræðu um málið og til undirbúnings atkvæðagreiðslunni,“ segir meðal annars í greinargerð með tillögunni.
Þingsályktunartillagan í heild