Vill láta meta þingtæki tillögunnar

Árni Páll Árnason á Alþingi
Árni Páll Árnason á Alþingi mbl.is/Árni Sæberg

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur sent bréf til forseta Alþingis, Einars Kr. Guðfinnssonar, þar sem þess er krafist að forsætisnefnd leggi mat á þingtæki tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn að ESB til baka.

„Ágæti forseti Alþingis.

Á dagskrá Alþingis í dag er þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka. Ítrekuð eru mótmæli frá í gær við því sýndarlýðræði sem felst í að bíða ekki þess að umræðu ljúki um skýrslu þá sem utanríkisríkisráðherra lét taka saman fyrir almannafé, en hefur þó ekki áhuga á að ræða eða láta verða til grundvallar ákvörðunum í málinu.

Sú staða að tillaga um að draga aðildarviðræðurnar til baka er komin á dagskrá kallar einnig á formleg efnisleg mótmæli og kröfu um að forsætisnefnd leggi mat á þingtæki tillögunnar. Fyrir því eru eftirfarandi ástæður.

  1. Greinargerð tillögunnar er einsdæmi um stjórnartillögu og felur í sér gildishlaðin ærumeiðandi ummæli í garð þeirra þingmanna sem greiddu aðildarumsókn atkvæði sitt eða tryggðu framgang hennar með hjásetu sumarið 2009. Því er því gert skóna að þeir hafi ekki greitt atkvæði eftir sannfæringu sinni, eins og boðið er í stjórnarskrá og þeim eignuð annarleg viðhorf. Vert er að minna á að þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi – þar á meðal þingmenn þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn – greiddu tillögu um aðild að ESB atkvæði sitt sumarið 2009. Margir þeirra sitja nú ekki á Alþingi og geta því ekki borið hönd fyrir höfuð sér til varnar ærumeiðingum af hálfu núverandi ríkisstjórnar.
  2. Tillagan kveður samkvæmt orðanna hljóðan á um að: „ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu“.

Það er meginregla í íslenskri stjórnskipun að allar þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi fara fram á grundvelli stjórnskipulega rétt settra laga. Þetta hefur gilt um allar þjóðaratkvæðagreiðslur í sögu landsins jafnt fyrir lýðveldisstofnun sem eftir. Þann 25. júní 2010 voru og sett sérstök lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Sú ályktunartillaga sem fram er komin stríðir gegn þeim lögum. Alþingi getur í ljósi ofangreinds ekki tekið ákvörðun um þjóðaratkvæðagreiðslu með öðrum hætti en með samþykki lagafrumvarps. Í ákveðnum tilvikum s.s. þeim sem spretta af málskotsrétti forseta Íslands mælir stjórnarskrá fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ofangreindur texti stjórnartillögu til þingsályktunar er því ekki tækur til þinglegrar meðferðar og málið ekki rétt fram borið.

  1. Þá er og ljóst að yfirstandandi 143. löggjafarþing Alþingis hefur ekki vald til að tæma vald löggjafarþinga framtíðarinnar til að taka ákvarðanir um að sækja um aðild að alþjóðastofnunum. Lýðveldisstjórnarskráin mælir fyrir um skyldubundið samþykki Alþingis fyrir þjóðréttarlegum samningum við önnur ríki. Í framkvæmd hefur þetta ekki verið bundið við fullgildingu heldur var ákvörðun um að leita aðildar að helstu alþjóðastofnunum í öllum sögulegum tilvikum afgreidd með ályktun Alþingis og því næst leidd til lykta af framkvæmdarvaldinu.

Um þennan þátt máls fjalla lagaprófessorarnir Ragnhildur Helgadóttir og Björg Thorarensen í Fréttablaðinu í dag og komast báðar að þeirri skýru niðurstöðu að hér geti í mesta lagi verið um „viljayfirlýsingu“ eða um „innantómt loforð“ að ræða, sem hafi enga stjórnskipulega þýðingu.

Minnt skal á skyldur einstaklinga kjörinna til setu á Alþingi til að virða stjórnarskrána, meginreglur hennar og stjórnarskrárfestuna. Órofa hefð er fyrir því á Íslandi í meira en 150 ár að alþingismenn undirriti drengskaparheit við stjórnarskrána og sú skuldbinding er í eðli sínu persónuleg skuldbinding undirrituð eigin hendi af hverjum og einum. Af henni leiðir einnig að þingmenn dagsins í dag geta ekki freistað þess með klækjabrögðum, í blóra við lög og stjórnarskrá, að binda hendur þeirra sem á eftir þeim koma á hinu háa Alþingi,“ segir í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert