„Það er ástæðan fyrir því að ég snöggreiddist og sagði hluti hér í þingsal eftir að ég kom úr stólnum sem ég hefði ekki átt að segja og bið ég þingheim afsökunar á því.“
Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í kvöld. Vísaði hún þar til atviks fyrr í dag þar sem hún sakaði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um að hafa hent í sig pappír þegar Bjarni lagði dagskrá þingsins í ræðustólinn hjá henni þar sem hún flutti ræðu. Þegar hún yfirgaf stólinn sagði hún: „Helvítis dóni.“
Katrín sagði ástæðu þess að hún snöggreiddist vera þá að Bjarni hefði ekkert tekið þátt í umræðunni sem fram fór um Evrópumálin og ennfremur að nokkrir ráðherrar í hliðarherbergi þingsalarins hafi sagt henni að róa sig. Hún sagðist eftir sem áður ekki sátt við framgöngu Bjarna. Það væru ekki ásættanleg vinnubrögð að ráðherrar tækju ekki þátt í umræðum en væru hins vegar með „skæting í formi sneplasendinga“. Það væri kannski ein leið til þess að eiga orðastað við ráðherrann.