Ekki verið að þæfa málið

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar.
Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Rósa Braga

Róbert Marshall, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar, segir að stjórnarandstaðan á Alþingi standi ekki fyrir neinu skipulegu málþófi í tengslum við tillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn Íslands að ESB. Hann á von á því að umræða um ESB-skýrslu Hagfræðistofnunar standi yfir í allan dag og fram eftir kvöldi.

Í gær og í fyrradag kvöddu þingmenn stjórnarandstöðunnar sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta í tengslum við ESB-málin alls 286 sinnum samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Alþingis. Samanlagður ræðutími var alls 311 mínútur, eða rúmar fimm klukkustundir á mánudag og þriðjudag.

Stórt mál sem þarf að ræða

Aðspurður segir Róbert í samtali við mbl.is að stjórnarandstaðan sé ekki að reyna þæfa málið með skipulegum hætti. „Þetta eru mál af slíkri stærðargráðu, og setur þessi Evrópumál í slíkt uppnám, að það er ekkert von á öðru en menn hafi margt um þau að segja. Það getur varla verið skipulagt eitthvað málþóf, eða til þess að tefja mál, þegar menn eru ekki einu sinni búnir að fara í ræðu.“

Þá tekur hann fram að þingmenn myndu nýta einhvern annan dagskrárlið heldur en umræðu um fundarstjórn forseta til að þæfa mál, enda ræðutíminn aðeins um ein mínúta.

Samkvæmt dagskrá Alþingis hefst þingfundur kl. 15 í dag með umræðu um störf þingsins. Umræða um skýrslu Hagfræðistofnunar er svo á dagskrá og því næst þingsályktunartillaga utanríkisráðherra. Þá er fyrirhugaður þingfundur á morgun kl. 10:30 en enginn fundur er á dagskrá á föstudag og sömu sögu er að segja um næstu viku vegna nefndardaga Alþingis.

Margir á mælendaskrá

„Menn eru bara að ræða þessa skýrslu og halda því áfram þangað til að það klárar sig. Það er enginn asi í málinu,“ segir Róbert og bætir við að hann geri ráð fyrir að margir muni taka þátt í umræðu um skýrsluna.

„Það er allt eins líklegt og það taki út þessa viku. Það eru heldur engar dagsetningar hvað varðar þingsályktunina hjá Gunnari Braga [Sveinssyni utanríkisráðherra]. Það er ekki eins og Evrópusambandinu vanti nýtt aðildarríki fyrir helgi,“ segir Róbert.

Hann á von á því að umræða um skýrsluna standi yfir í allan dag og fram eftir kvöldi. „Ef ég reyni að leggja það eitthvað saman, að það séu að minnsta kosti sjö, átta tímar eftir í því.“

Róbert á von á því að það verði líklega metið í dag hvenær Gunnar Bragi mæli fyrir þingsályktunartillögunni. Það geti gerst í kvöld, í nótt eða jafnvel á morgun. Í framhaldinu hefjist þá umræða um hana. 

Tillagan ekki að brenna inni á tíma

Aðspurður telur Róbert ólíklegt að aukafundur verði boðaður á föstudaginn. „Ég held að það væri algerlega kostnaðarlaust fyrir stjórnarflokkana að þessi umræða um þingsályktunina færi fram í mars, eftir nefndarvikuna. Hún er ekki að brenna inni á tíma, það er enginn sem bíður, það er engin gildistaka sem hvílir yfir mönnum eða neitt slíkt. Það eru engar dagsetningar í málinu sem kalla á það að menn séu að fara setja á aukafundi eða breyta dagskrá þingsins,“ segir Róbert.

„Sé stjórninni alvara um að afgreiða þetta þá mun hún gera það í fyllingu tímans. Hún hefur til þess meirihluta væntanlega,“ segir Róbert ennfremur.

Spurður hvort forseti Alþingis hafi kallað formenn þingflokkana til fundar segir hann að enginn slíkur fundur hafi verið boðaður.

Betra fyrir þingið og pólitíkina

Varðandi orðalag þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu harðlega í gær, segir Róbert: „Það sem við vorum að benda á - og höfum bent á alveg frá því á mánudaginn - var að úr því það væri verið að ræða skýrsluna [Hagfræðistofnunar] ennþá þá væri nú lítið mál að nýta tímann til þess að prenta upp þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, og taka út þann kafla þar sem hann er að gera úr því skóna að menn hafi framið stjórnarskrárbrot á síðasta kjörtímabili,“ segir hann.

„Það breytir ekki afstöðu okkar til þeirrar tillögu hvort hann gerir það eða ekki. Það er betra fyrir þingið og betra fyrir pólitíkina að hann sé ekki með slík brigslyrði inni í greinargerð,“ segir Róbert og bætir við að tillaga ráðherra sé eftir sem áður bæði arfaslök og vond.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ræðir málin við Sigmund Davíð Gunnlaugsson …
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ræðir málin við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á þingflokksfundi Framsóknarflokksins fyrir skemmstu. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert