Samtök iðnaðarins mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um algjör slit á aðildarviðræðum við ESB. Með henni fer ríkisstjórnin gegn stórum hópi iðnfyrirtækja sem vilja að skoðað verði til hlítar hvort samkeppnishæfni þeirra sé betur tryggð innan ESB eða utan, og hvort ekki megi ná samningum þar sem staðinn er vörður um hagsmuni Íslands. Þetta kemur fram í ályktun frá samtökunum.
Í ályktuninni kemur fram að Samtök iðnaðarins gerðu nákvæma hagsmunagreiningu með víðtækum viðtölum við forsvarsfólk iðnfyrirtækja af öllum gerðum árið 2010 vegna aðildarumsóknarinnar. Nýlega var ákveðið að leita eftir samstarfi við utanríkisráðuneytið um að leiða í ljós hvernig þessum samningsmarkmiðum reiddi af í aðildarviðræðunum svo þá niðurstöðu megi kynna öllum félagsmönnum SI. Þá er og beðið skýrslu Alþjóðamálastofnunar fyrir atvinnulífið. Yfirlýst ákvörðun ríkisstjórnarinnar nú er ekki tímabær og aðrir mildari kostir augljósir.
„Í aðgangi að innri markaði Evrópusambandsins felast einir mikilvægustu þjóðarhagsmunir Íslendinga,“ segir í ályktuninni. „Mikilvægt er að varðveita stöðu Íslands sem trúverðugs þátttakanda á innri markaði Evrópu í ljósi viðkvæmrar efnahagslegrar stöðu Íslands.
Samtök iðnaðarins skora á ríkisstjórnina að endurskoða ákvörðun sína og láta meta hagsmuni íslensku þjóðarinnar ýtarlega áður en til frekari aðgerða verður gripið.“