Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, kallaði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, „helvítis dóna“ og sagði að hann hefði kastað í hana pappír þegar hún var í ræðustól. „Hann hendir ekki í mig pappírum þegar ég hef orðið,“ sagði Katrín og krafðist þess að ráðherra yrði víttur. Ekki var orðið við því.
„Virðulegur forseti, er þetta venjan hér?“ spurði Katrín sem var bæði brugðið og afar reið yfir háttsemi ráðherrans.
Forseti sagðist ekki þurfa að gera sérstakar athugasemdir við þetta, þar sem fordæmi væru fyrir háttsemi ráðherrans. Bjarni kom síðar upp í ræðustól og sagðist ekki hafa kastað neinum pappír. Hann hafi eingöngu lagt blaðið fyrir Katrínu.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, kom einnig í ræðustól og nefndi að þegar tveir þingmenn trufluðu þingmann Sjálfstæðisflokksins, núverandi menntamálaráðherra, á síðasta kjörtímabili þá hafi þingfundi verið slitið. Það að trufla þingmann í ræðustól hafi þótt afar ómerkilegt.
Þetta sagði Katrín úr ræðustól Alþingis:
„Virðulegi forseti, er þetta venjan hér. Að hæstvirtir ráðherrar skutli í ræðumann pappírum á meðan þeir eru að tala í ræðustól. Hvernig er farið með vítur í þessum þingsal.
Hæstvirtur ráðherra getur komið hér í ræðustól, kjósi hann svo, og sagt sína meiningu hér. Hann hendir ekki í mig pappírum þegar ég hef hér orðið. Hæstvirtur ráðherra hefur hér opinberað ósannsögli sína í aðdraganda kosninga, hann hefur aldrei verið maður til að koma hérna upp og segja hvers vegna en hann er maður til þess að henda í mig pappír, á meðan ég stend hér í ræðustól. Ég hef aldrei orðið vitni að öðru eins.“ Þegar hún gekk úr ræðustólnum kallaði hún Bjarna svo „helvítis dóna“.
Bjarni kom svo sjálfur upp í ræðustól og skýrði sína hlið málsins:
„Hér fyrir nokkrum ræðum stóð háttvirtur þingmaður Katrín Júlíusdóttir og sagði að það væru engin mál á dagskránni. Af því tilefni fannst mér sjálfsagt að leggja hér í ræðustól dagskrá þingsins, en það eru 25 mál á dagskrá þingsins í dag. Ég hvorki kastaði neinum pappírum í háttvirtan þingmann, eins og síðar hefur verið sagt, eða réðist að henni eða truflaði, ég bara lagði varlega blaðið, þetta er dagskrá Alþingis.“