„Mér finnst þetta ekki siðlegt“

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég spyr hvort það sé siðlegt af þjóð, sem mælist í meirihluta andvíg inngöngu í Evrópusambandið, að sitja við samningaborð með ærnum tilkostnaði fyrir okkar þjóð og Evrópusambandið líka, bara til að fiska, að sjá hvað hugsanlega kemur upp úr pokanum. Mér finnst þetta ekki siðlegt. Við eigum að koma hreint fram.“

Þetta sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í kvöld í umræðum um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið. Hann sagðist hlynntur því að kosið yrði um framhald málsins í þjóðaratkvæði. En þar sem um aðlögunarferli að ESB væri að ræða ætti sú spurning að snúast um það hvort þjóðin vildi ganga í sambandið og þar með halda umsókninni um inngöngu til streitu á þeirri forsendu.

Ögmundur rifjaði upp forsögu málsins og sagði að illu heilli hefði ekki verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um umsóknina sumarið 2009. Það hafi VG viljað en Samfylkingin hefði hins vegar lagst gegn þeirri lýðræðislegu leið. Hann og fleiri þingmenn VG hafi staðið í þeirri trú að um hefðbundnar samningaviðræður yrði að ræða þar sem farið yrði yfir helstu álitamál. Annað hefði komið á daginn. Í gang hefði farið ferli sem gengið hefði út á það að aðlaga íslenska stjórnsýslu að stjórnsýslu ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka