„Minnihlutinn ræður ekki dagskrá þingsins“

Jón Þór Ólafsson fyrsti flutningsmaður tillögunnar í ræðustól í dag.
Jón Þór Ólafsson fyrsti flutningsmaður tillögunnar í ræðustól í dag.

Tillaga Pírata um að taka á dagskrá þingsályktunartillögu um að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor var felld við upphaf þingfundar á Alþingi í dag með 34 atkvæðum gegn 23, en sex voru fjarverandi. Formaður Sjálfstæðisflokksins segir minnihlutann ekki fá að ráða dagskrá þingsins með ofbeldi.

Til þess að mögulegt væri að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna samhliða sveitarstjórnarkosningunum hefði þurft að samþykkja þingsályktunartillögu Pírata fyrir vikulok. Ekki kemur hins vegar til þess að greidd verði atkvæði um tillöguna þar sem hún komst ekki á dagskrá þingsins.

Við umræðuna í upphafi þingfundar sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, meðal annars að honum væri umhugað um farsæld og velferð formanns Sjálfstæðisflokksins og að það væri ómögulegt að hann stæði ekki við orð sín. Hann hafi lofað því að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla, á fyrri hluta kjörtímabilsins, og því sé það skylda þingheims að koma í veg fyrir að hann verði uppvís að því sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins kallaði sögulegustu svik á lýðveldistímanum.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði að með þessari tillögu væri verið að henda líflínu til Sjálfstæðisflokksins, þannig að hann geti borið höfuð sitt hátt gagnvart sínum kjósendum. Svikin séu söguleg, og einnig dónaleg og eyðileggjandi fyrir pólitíkina í heild sinni. Katrín las upp úr kosningaefni Sjálfstæðisflokksins og sagði þann pappír ekki meira virði en „skeinipappír“. Og svo virtist sem þingmönnum Sjálfstæðisflokksins væri sama þótt orð formannsins séu algjörlega ómarktæk. 

Forseti Alþingis bar Katrínu þá þá um að gæta hófs í orðum sínum.

„Svínbeygður“ Sjálfstæðisflokkur

Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, benti á að Alþingi nyti trausts 10% þjóðarinnar. Og með því að fella þessa tillögu væri Alþingi að segja það sama við þjóðina, þ.e. að Alþingi treysti ekki heldur þjóðinni.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði alveg ljóst að hún vilji að þessari ákvörðun verði vísað til þjóðarinnar. Hins vegar sé hún ósammála því að jafn mikið og stórt deilumál verði sett inn í kosningabaráttuna fyrir sveitarstjórnarkosninguna. Það eigi ekkert skylt við traust hennar á þjóðinni, sem sé nokkuð gott og hafi alltaf verið.

Þá sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu haft tíma frá síðustu kosningum til að leggja tillöguna fram. Ekkert hafi komið í veg fyrir það. En nú þegar svo naumur tími er sé þess krafist að hún sé sett á dagskrá og það strax. „En það er því miður þannig að minnihlutinn ræður ekki dagskrá þingsins með ofbeldi. Þannig var það ekki á síðasta kjörtímabili og þannig er það ekki núna.“

Hann sagði að tillagan eigi ekkert erindi fram fyrir tillögu stjórnarinnar á dagskrá þingsins, sem er um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Hann sagði einnig að þingsályktunartillagan stangist á við lög um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði ekki viljaleysi um að kenna að tillagan hafi ekki verið lögð fyrr fram. „Við trúðum því að fjármálaráðherra ætlaði að efna kosningaloforð sín. Við vorum svo bláeygð.“

Össur Skarphéðinsson óskaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokks og forsætisráðherra, í kjölfarið til hamingju með daginn. Honum hafi tekist að svínbeygja Sjálfstæðisflokkinn með þeim hætti sem áður hefur ekki verið gert. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið svínbeygður þannig að hann efni ekki eigin kosningaloforð. „Það er ótrúlegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert