„Minnihlutinn ræður ekki dagskrá þingsins“

Jón Þór Ólafsson fyrsti flutningsmaður tillögunnar í ræðustól í dag.
Jón Þór Ólafsson fyrsti flutningsmaður tillögunnar í ræðustól í dag.

Til­laga Pírata um að taka á dag­skrá þings­álykt­un­ar­til­lögu um að boða til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald aðild­ar­viðræðna Íslands við Evr­ópu­sam­bandið sam­hliða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um í vor var felld við upp­haf þing­fund­ar á Alþingi í dag með 34 at­kvæðum gegn 23, en sex voru fjar­ver­andi. Formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins seg­ir minni­hlut­ann ekki fá að ráða dag­skrá þings­ins með of­beldi.

Til þess að mögu­legt væri að halda þjóðar­at­kvæðagreiðsluna sam­hliða sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um hefði þurft að samþykkja þings­álykt­un­ar­til­lögu Pírata fyr­ir viku­lok. Ekki kem­ur hins veg­ar til þess að greidd verði at­kvæði um til­lög­una þar sem hún komst ekki á dag­skrá þings­ins.

Við umræðuna í upp­hafi þing­fund­ar sagði Össur Skarp­héðins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, meðal ann­ars að hon­um væri um­hugað um far­sæld og vel­ferð for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins og að það væri ómögu­legt að hann stæði ekki við orð sín. Hann hafi lofað því að það yrði þjóðar­at­kvæðagreiðsla, á fyrri hluta kjör­tíma­bils­ins, og því sé það skylda þing­heims að koma í veg fyr­ir að hann verði upp­vís að því sem fyrr­ver­andi formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins kallaði sögu­leg­ustu svik á lýðveld­is­tím­an­um.

Katrín Júlí­us­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, sagði að með þess­ari til­lögu væri verið að henda líflínu til Sjálf­stæðis­flokks­ins, þannig að hann geti borið höfuð sitt hátt gagn­vart sín­um kjós­end­um. Svik­in séu sögu­leg, og einnig dóna­leg og eyðileggj­andi fyr­ir póli­tík­ina í heild sinni. Katrín las upp úr kosn­inga­efni Sjálf­stæðis­flokks­ins og sagði þann papp­ír ekki meira virði en „skeinipapp­ír“. Og svo virt­ist sem þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins væri sama þótt orð for­manns­ins séu al­gjör­lega ómark­tæk. 

For­seti Alþing­is bar Katrínu þá þá um að gæta hófs í orðum sín­um.

„Svín­beygður“ Sjálf­stæðis­flokk­ur

Ró­bert Mars­hall, þingmaður Bjartr­ar framtíðar, benti á að Alþingi nyti trausts 10% þjóðar­inn­ar. Og með því að fella þessa til­lögu væri Alþingi að segja það sama við þjóðina, þ.e. að Alþingi treysti ekki held­ur þjóðinni.

Ragn­heiður Rík­h­arðsdótt­ir, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði al­veg ljóst að hún vilji að þess­ari ákvörðun verði vísað til þjóðar­inn­ar. Hins veg­ar sé hún ósam­mála því að jafn mikið og stórt deilu­mál verði sett inn í kosn­inga­bar­átt­una fyr­ir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­una. Það eigi ekk­ert skylt við traust henn­ar á þjóðinni, sem sé nokkuð gott og hafi alltaf verið.

Þá sagði Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, að þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar hefðu haft tíma frá síðustu kosn­ing­um til að leggja til­lög­una fram. Ekk­ert hafi komið í veg fyr­ir það. En nú þegar svo naum­ur tími er sé þess kraf­ist að hún sé sett á dag­skrá og það strax. „En það er því miður þannig að minni­hlut­inn ræður ekki dag­skrá þings­ins með of­beldi. Þannig var það ekki á síðasta kjör­tíma­bili og þannig er það ekki núna.“

Hann sagði að til­lag­an eigi ekk­ert er­indi fram fyr­ir til­lögu stjórn­ar­inn­ar á dag­skrá þings­ins, sem er um að draga um­sókn Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu til baka. Hann sagði einnig að þings­álykt­un­ar­til­lag­an stang­ist á við lög um þjóðar­at­kvæðagreiðslu.

Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði ekki vilja­leysi um að kenna að til­lag­an hafi ekki verið lögð fyrr fram. „Við trúðum því að fjár­málaráðherra ætlaði að efna kosn­ingalof­orð sín. Við vor­um svo blá­eygð.“

Össur Skarp­héðins­son óskaði Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni, for­manni Fram­sókn­ar­flokks og for­sæt­is­ráðherra, í kjöl­farið til ham­ingju með dag­inn. Hon­um hafi tek­ist að svín­beygja Sjálf­stæðis­flokk­inn með þeim hætti sem áður hef­ur ekki verið gert. Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, hafi verið svín­beygður þannig að hann efni ekki eig­in kosn­ingalof­orð. „Það er ótrú­legt.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert