Þingmenn stjórnarandstöðunnar brugðust hart við í gær eftir að forseti Alþingis lýsti því yfir að þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka væri væri aftur á dagskrá þingsins. Stjórnarandstaðan gerði sérstakar athugasemdir við orðalag greinargerðarinnar þar sem vegið væri að æru þingmanna.
Það var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem krafðist þess að forsætisnefnd legði mat á þingtæki tillögu utanríkisráðherra. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagði við upphaf þingfundar í gær að engir annmarkar væru á tillögunni og var hún því aftur sett á dagskrá, líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar voru mjög ósáttir við þá niðurstöðu. Árni Páll sagði að í tillögunni væri vegið „að æru þingmanna sem greiddu atkvæði með aðildarumsókn sumarið 2009 og þeir eru margir ekki hér til að svara ásökunum og áburði stjórnarflokka í því efni.“
Fleiri þingmenn tóku í sama streng og vísuðu til orðalags í greinargerðinni þar sem segir að leiða mætti að því rök að ekki hefði í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur „hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna.“
Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, sendi svo forsætisnefnd þingsins bréf þar sem hún fór fram á að nefndin óskaði skýringar ríkisstjórnarinnar á meintum ávirðingum í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Utanríkisráðherra sagðist í gærkvöldi ætla að breyta greinargerðinni í samræmi við athugasemdir stjórnarandstæðinga.
Byrjun greinargerðarinnar umdeildu er eftirfarandi:
„Með ályktun Alþingis sem samþykkt var 16. júlí 2009 var þáverandi ríkisstjórn falið að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið skyldi haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Allar götur síðan hefur það ferli sem hrundið var af stað með þessari þingsályktun sætt þungri gagnrýni. Langur vegur er frá því að um það hafi ríkt sú sátt og sá stuðningur sem almennt er talinn nauðsynlegur grundvöllur ferlis af því tagi sem hér um ræðir.
Miðað við það sem fram hefur komið í atkvæðaskýringum, yfirlýsingum þingmanna og fleiri gögnum má jafnvel leiða að því rök að ekki hafi í raun verið til staðar meirihlutavilji fyrir málinu heldur hafi þetta verið hluti af pólitísku samkomulagi þáverandi stjórnarflokka við myndun ríkisstjórnar og atkvæðagreiðslan því tæplega lýsandi fyrir afstöðu þingmanna. Þá hefur lengi legið fyrir að meiri hluti íslensku þjóðarinnar er á móti því að Ísland gangist undir skilmála Evrópusambandsins og gerist þannig meðlimur þess þótt vilji sé fyrir að kanna möguleika á aðild.“