Skaðar ekki mögulega umsókn síðar

Daniel Gros, framkvæmdastjóri hugveitunnar Centre for European Policy Studies.
Daniel Gros, framkvæmdastjóri hugveitunnar Centre for European Policy Studies.

Möguleikar Íslands á að ganga í Evrópusambandið í framtíðinni skaðast ekki þó umsóknin um inngöngu í sambandið verði dregin til baka. Þetta er mat Daniels Gros, framkvæmdastjóra hugveitunnar Centre for European Policy Studies, en rætt var við hann í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Haft er eftir honum að það hafi ekki komið sér á óvart að ríkisstjórnarflokkarnir hafi ákveðið að draga umsóknina til baka. Hann hafi frekar verið hissa þegar umsóknin kom fram á sínum tíma í ljósi þess að stuðningur almennings hafi ekki verið mjög mikill. „Við höfum séð hvað gerðist í Noregi. Þar sótti ríkisstjórnin um aðild og lagði kapp á að hún yrði samþykkt en meirihluti kjósenda hafnaði henni. Það er best að koma í veg fyrir að slík staða komi upp.“

Gros telur ekki sjálfgefið að nýrri umsókn yrði tekið með tortryggni þó hún yrði háð samþykki allra ríkja Evrópusambandsins. Ef stjórnvöld á Íslandi kæmust á þá skoðun að rétt væri að ganga í sambandið þætti því vafalaust fengur að því að fá landið í sínar raðir. Ísland væri ríkt land, því væri vel stjórnað og Evrópusambandið ætti því að fagna nýrri umsókn kæmi hún einhvern tímann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert